145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að menn séu ánægðir með að ég sé í salnum, það er gott að vera með þann anda.

Af því að spurt er í hvaða feril þetta mál muni fara í allsherjarnefnd get ég svarað að ég geri ráð fyrir að það fari í hefðbundinn feril. Þegar við fáum stærri mál, sérstaklega þar sem eru mjög skiptar skoðanir, erum við yfirleitt með um það bil þriggja vikna umsagnarfrest, svo það komi fram. Eftir að umsagnir hafa borist tökum við að sjálfsögðu á móti gestum, hlustum á ólík sjónarmið og reynum að kynna okkur hvað það er helst sem menn hafa athugasemdir við.

Það var fundur í allsherjarnefnd í hádeginu þar sem send voru út til umsagnar þau mál sem innanríkisráðherra mælti fyrir um millidómstigið. Umsagnarfrestur í þeim málum var ákveðinn 11. apríl af því að páskar eru fram undan. Í því máli lá fyrir mjög viðamikið samráð og umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins og mikil vinna í nefnd sem vann það mál.

Ég vonast til að þetta mál komist til nefndar þannig að við getum byrjað að kynna okkur (Forseti hringir.) allar athugasemdirnar.