Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[13:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Það hefur verið áhugavert að heyra stjórnarliða, og sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, láta þetta mál snúast um allt annað en þá tillögu sem hér liggur fyrir, en við það hefur Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega undirstrikað einbeittan og ítrekaðan brotavilja Jóns Gunnarssonar og flokksins alls. Flokkurinn stendur óskoraður að baki því að dómsmálaráðherra standi í vegi fyrir lagasetningu Alþingis. Þeir vilja bara helst að hann geri meira af því. Og hver er síðan virðingin fyrir lýðræðislegu samtali hér í salnum þegar stjórnarliðar láta eins og við séum í einhverri pólitískri herferð þegar við erum að benda á efni máls þannig að þau benda bara á valdastólana? Þar vantar málefnalegu rökin. Rifjast því miður upp atkvæðaskýringar sem hér voru látnar falla síðast þegar Vinstri græn vörðu dómsmálaráðherra vantrausti þegar hv. þingmenn sögðu í ræðustól, frekar en að ræða efni málsins sem á endanum varð ráðherranum að falli, að þeir styddu ríkisstjórnina og greiddu þess vegna atkvæði gegn vantrausti. Sama jarmið heyrum við nú frá þingflokksformanni Vinstri grænna. Þetta snýst ekkert um efni máls. Þetta snýst um blinda hollustu. — Ég segi já.