138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Í Fréttablaðinu í gær er greint frá þeirri fortíðarþrá íslenskra bankamanna að aftur verði tekið upp svonefnt bónuskerfi í íslenskum bönkum. Ég tek þetta upp undir liðnum um störf þingsins vegna þess að ég tel að stjórnvöld og almenningur allur og fulltrúar almennings á Alþingi verði að vera meðvituð um þá hættu sem af þessu stafar fyrir enduruppbyggingu íslensks viðskiptalífs og friðinn í samfélaginu. Bankarnir hrundu og almenningur sýpur nú seyðið af því — og hvers vegna hrundu bankarnir?

Stór ástæða þess var að allir höfðu komið sér upp árangurshvetjandi launakerfi sem beinlínis hvatti til þeirrar skammtímaáhættutöku sem var ein af meginástæðum fjármálakrísunnar. Þær fréttir sem berast af þessum hugmyndum innan bankakerfisins benda til þess að menn hafi engu gleymt innan íslenska bankakerfisins og ekkert lært frá árinu 2007. Það var íslenska ríkið sem kom bönkunum til bjargar. Það er vegna þeirra sem Seðlabankinn fór á hausinn og vegna þeirra sem eitt mál, Icesave, hefur skyggt á alla stjórnmálaumræðu í landinu í eitt og hálft ár.

Sé það mat bankanna, skilanefndanna, að nú sé aftur runninn upp tími bónusgreiðslna hljóta þessar fjármálastofnanir að vera aflögufærar í sjóði landsmanna. Það er þess vegna heitstrenging þess sem hér stendur að gangi þetta eftir verði flutt um það tillaga að slíkar bónusgreiðslur verði skattlagðar upp í rjáfur svo bankarnir skili aftur þeim fjármunum til heilsugæslunnar, skólanna, löggæslu og hins félagslega tryggingakerfis sem við höfum neyðst til að skera niður vegna sögulegs ábyrgðarleysis þeirra sem nú vilja taka upp að nýju árangurshvetjandi launakerfi. Það er líka ástæða til að hvetja almenning og viðskiptamenn bankanna til að senda þeim skýr skilaboð. Þeir þurfa að vita að við verðum ekki í viðskiptum við banka sem haga sér eins og partíið frá 2007 sé hafið að nýju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Hverjir eru eigendur?)