138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þingfundur hefur nú aðeins staðið yfir í klukkutíma og þegar eru komnar fram tvær mjög merkilegar yfirlýsingar. Þær eru báðar frá stjórnarflokkunum. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. Lilja Mósesdóttir áðan að það yrði að knýja bankana í afskriftir. Þetta er nákvæmlega það sem framsóknarmenn hafa sagt núna í yfir eitt ár. Þetta er mjög mikilvæg og góð yfirlýsing. Svo kemur hér upp hv. þm. og formaður allsherjarnefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og segir: Við gerðum mistök. Við hefðum átt að flokka lögregluna með grunnþjónustunni í kerfinu okkar, með heilbrigðisþjónustunni, menntamálunum og félagsþjónustunni. Það átti ekki að skera svona mikið niður hjá lögreglunni eins og við gerðum. Þetta er mjög mikil og góð yfirlýsing. Ég tek undir hana. Ég treysti á að stjórnarflokkarnir hlusti nú á þegar formaður allsherjarnefndar talar svona ákveðið og beitt hér á þessum nótum. Við skulum taka mark á því. Ég vil gera það.

Ég verð hins vegar fyrir talsverðum vonbrigðum þegar ég heyri hvernig VG hefur talað í þessari umræðu. Hv. þm. Atli Gíslason kom hér upp og lagði sig í framkróka um að etja lögreglunni saman. Mér finnst það ekki við hæfi í stöðunni. Hér var talað um ríkislögreglustjóraembættið af talsverðum hroka, vil ég segja. Þar fer fram mikilvæg starfsemi og það vita þingmenn. Auðvitað þurfum við að endurskoða alla starfsemina og skoða hvað betur má gera. En það má ekki tala svona eins og hér er gert um ákveðnar stofnanir sem gegna lykilhlutverki. Það er verið að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi til dæmis og menn vita að hún hefur farið vaxandi hér. Af hverju að vera að etja lögregluembættunum svona saman: Það á að leggja ríkislögreglustjóraembættið niður og það á bara að setja allt til lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu? Við eigum ekki að láta svona, við þingmenn. (Gripið fram í.) Það á að fara miklu faglegar yfir þetta en við gerum hér.

Við eigum að fagna því hvað lögreglan stendur vel hérna. Hún er núna í efsta sæti samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups, (Forseti hringir.) í fyrsta skipti í átta ár. Hún toppar Háskólann. Þetta er frábær árangur. En við verðum að stíga varlega til jarðar og etja ekki mönnum saman innan lögreglunnar.