149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar misstum forræði okkar yfir stjórn umhverfismála í hendur Brussel-valdinu með þeim afleiðingum að það er nú skylda að allar framkvæmdir sem er ráðist í fari í umhverfismat. Við glötuðum yfirráðum okkar yfir neytendamálum með þeim afleiðingum að nú hefur sérstakri neytendavernd verið þröngvað upp á landsmenn. Við ráðum ekki einu sinni yfir því lengur, herra forseti, hvernig háttað er vinnulöggjöf.

Og þannig getum við talið upp alls konar réttindi sem aðildin að EES hefur fært íslenskum almenningi. Þetta er ekki endilega vegna þess að við Íslendingar séum ófærir um að sjá fótum okkar forráð eða eigum að gefa upp fullveldi okkar fyrir fullt og allt eða segja okkur til sveitar í öðrum ríkjum, alls ekki, öðru nær. Evrópusambandið er hins vegar vettvangur fullvalda ríkja þar sem skapaðar eru leikreglur hins frjálsa markaðar og séð til þess að réttindi séu virt en ekki sé hægt að sitja yfir hlut annarra í krafti auðmagns og sterkrar stöðu.

Nú er komið fram mál sem varðar náttúruvernd og neytendavernd í orkumálum Evrópu, kennt við þriðja orkupakka. Og það er eins og við manninn mælt. Menn einblína á ímyndað fullveldisafsal en horfa ekkert á þá réttarbót sem kann að felast í málinu. Við þurfum að ræða hér á Alþingi af heilindum og alvöru um það hvernig við ætlum að haga nýtingu og eignarhaldi á auðlindum okkar.

Við þurfum að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum svo að þær lendi ekki í braskarahöndum. Hættan sem okkur Íslendingum er búin er ekki af völdum utanaðkomandi ógnar. Hún er okkar eigin græðgi, okkar eigin stundarhagsmunablinda. Það er löngu tímabært, herra forseti, (Forseti hringir.) að við tryggjum í stjórnarskránni að auðlindir þjóðarinnar séu alltaf og ævarandi í hennar eigu.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)