Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

náttúruvernd.

912. mál
[14:05]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur fyrir sína jómfrúrræðu. Það fer vel á því að ræða málefni sem er svo sannarlega málefni framtíðarinnar, eins og hv. þingmaður vísaði til, en reyndar nútíðarinnar líka, og það er ánægjulegt að finna fyrir ferskum vindum þegar hér koma inn nýir hv. þingmenn sem eru með sýn í þessum mikilvæga málaflokki. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þarna eru mikil verðmæti sem við erum ekki að nýta. Við stöndum okkur mun verr en þau sem standa sig best í þessu. En sem betur fer, af því að hv. þingmaður vísaði hér til losunarmála, þá er þetta eitt af því sem við erum með sérstakar áætlanir um og augun á því að þetta tengist losunarmálum en þetta tengist líka því að auka verðmæti því að núna er þetta þannig að það er fyrst og fremst kostnaður fyrir okkur en lítið af tekjum. Það fyrirkomulag sem var tekið upp um áramótin, sem er mjög róttækt, opnar nákvæmlega þessa hluti sem hv. þingmaður er að vísa til, að fleiri aðilar geti nýtt sér ruslið okkar til að búa til verðmæti. En auðvitað er það líka markmið að við nýtum hlutina betur og vörur séu hannaðar þannig að sem allra minnstar líkur séu á því og verði sem minnst af rusli framtíðarinnar þegar varan verður til.

Ég vildi bara segja það, virðulegur forseti, að ég er mjög ánægður að heyra ræðu hv. þingmanns. Ég óska þingmanninum til hamingju með hana. Það er gott til þess að vita að hér eru ungir og ferskir hv. alþingismenn sem ætla að taka þetta mál upp á sína arma með okkur í ráðuneytinu. Það gefur fyrirheit um góða tíma.