138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að taka upp bónusgreiðslur í bankakerfinu. Það hefur verið mikil umræða um skuldir heimilanna undanfarið og það er alveg ljóst að íslensku viðskiptabankarnir hafa umtalsvert svigrúm til afskrifta á skuldum heimilanna og til almennra höfuðstólsleiðréttinga fyrir venjulegt fólk. Það er mikilvægt að bankarnir nýti það svigrúm sem þeir hafa í því skyni. Ég held þess vegna að við þurfum að ræða það á Alþingi hvort við eigum ekki að banna það að kaupaukagreiðslur hvers konar eða bónusgreiðslur séu greiddar af föllnu bönkunum sem tengjast endurheimtum á skuldum heimilanna. Það er mjög mikilvægt að allir vinni kappsamlega að því að endurskipuleggja skuldir heimilanna og nýta það svigrúm sem til þess er og að það séu engin önnur sjónarmið um að ná sem mestu út úr kröfunum eða lengja ferlið óþarflega. Við höfum öll sameiginlega hagsmuni af því að endurskipulagning skuldanna og niðurfærslur á höfuðstólum geti gengið hratt og vel fyrir sig til að koma hjólum efnahagslífsins í gang. Það eru heildarhagsmunir okkar, og hvatakerfi hvers konar í tengslum við þá endurskipulagningu tel ég nokkuð sem við þurfum að fara hér yfir, hvort ekki sé einfaldlega rétt að banna það, ekki bara gagnvart þeim bönkum sem við eigum í heldur yfir höfuð í tiltektinni eftir hrunið. Ríkisvaldið sem veitir fjármálastofnunum í landinu margvíslega fyrirgreiðslu og margvíslegan stuðning, getur eðlilega gert kröfur um að þar séu í gildi ákveðnar leikreglur og að hér sé ákveðin þjóðarsátt um grundvallaratriði.