149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á í smá erfiðleikum með þetta frumvarp, ekki vegna þess að ég telji ekki að kaupendur eigi að greiða allan sendingarkostnað sem þeir eiga að sjálfsögðu að gera og þar liggur eiginlega hnífurinn í kúnni. Alþjóðapóstsambandið er önnur elsta stofnunin innan Sameinuðu þjóðanna og það endurspeglast rauninni í vandamálinu, þar er talað um þróunarlönd og ekki þróunarlönd, sem er bara ekki lengur satt. Það var kannski satt þegar stofnunin var sett á laggirnar, en er það ekki lengur.

Þær þjóðir sem eru undir þessum hatti, þróunarlönd, sem þurfa ekki að greiða eins há endastöðvargjöld eru það fjölmenn að þau koma í rauninni í veg fyrir verðbreytingar sem endurspegla veruleikann eins og hann er í dag. Þess vegna endum við hérna. En hérna megin er Íslandspóstur sem segir að endastöðvargjaldið dugi ekki og nefnir hlutföll eins og 30% og 70%, en getur á sama tíma ekki sagt nákvæmlega til um það hvað vantar upp á endastöðvargjaldið.

Þegar á að setja viðbótarburðargjald sem á að dekka það sem vantar upp á endastöðvargjaldið þá velti ég fyrir mér hvort það sé í raun og veru ekki einmitt viðbótarendastöðvargjald frekar en viðbótarburðargjald og hvernig það spilar inn í samninga okkar. Þó að við getum sett ákveðin lög þá hafa umsagnaraðilar og gestir sagt að við séum á lagalega gráu svæði þangað til við getum gert einhverja fyrirvara. Þá er meira að segja líka sagt að það liggi ekki alveg ljóst fyrir hvernig önnur lönd eins og Ástralía, Nýja-Sjáland og Kanada nýta sér fyrirvara. Þá væri enn þá spurningarmerki um þetta gráa lagalega svæði.