152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[22:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp kemur í kjölfar laga sem við samþykktum hér á þingi árið 2020 sem er ætlað að sporna gegn samþjöppun á eignarhaldi á landi á of fáar hendur og þau hafa þegar gert það. Í þessu frumvarpi sem við afgreiðum hér er hins vegar verið að stórbæta stjórnsýslu jarðamála og öðlast aukna yfirsýn yfir land, auðlindina sem land er. Ég vil þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir einstaklega gott samstarf og fullvissa nefndarmenn um það, vegna þess álits sem þau skiluðu um málið, að næsta haust mun þingið fá til meðferðar enn eitt frumvarp af sama meiði sem varðar fjárfestingar erlendra aðila í mikilvægum innviðum og vonandi þegar þessu verður öllu lokið verðum við komin með miklu betri yfirsýn yfir þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk. Ég þakka nefndinni gott samstarf um þetta mikilvæga mál.