152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

áfengislög.

596. mál
[22:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég var afar ánægð að sjá þann mikla samhug sem var í þessu máli hér við atkvæðagreiðslu í 2. umr. En þegar unnið er hratt þá yfirsést okkur stundum aðeins. Þannig er mál með vexti að í upphaflega frumvarpinu frá ráðherra var lagt til að gildistaka ætti sér stað 1. janúar 2023. Ég hygg að margir þarna úti sem voru að fagna því að þetta mál væri nú loksins að ná í gegnum þingið hafi kannski hugsað að ferðamannasumarið myndi nýtast þessum aðilum mjög vel. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu þess efnis að í stað 1. janúar 2023 komi 1. júlí 2022. Það er þá helst á þeim rökum að nú verður von bráðar háannatími í ferðaþjónustunni og við erum jú að fjalla um ferðaþjónustu og landbúnað og ég held að þetta skipti miklu máli. Ég held að ráðuneytið verði að gera sér að góðu að undirbúa það sem þarf að undirbúa fyrir þann tíma.

Ég legg þessa breytingartillögu fram í mínu eigin nafni því að ekki er hægt að halda fund í nefndinni. En ég hef rætt við alla nefndarmenn sem eru hér á svæðinu og ég hygg að þeir séu allir samþykkir þessari breytingartillögu.