Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:13]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu og ég get tekið undir svo fjölmargt sem hann lagði áherslu á í sinni ræðu, sérstaklega samband neytenda og bænda og það var vel gert líka hjá hæstv. matvælaráðherra í hennar framsögu, hún fjallaði um þann þátt. En ég vil í fyrra andsvari mínu ræða einmitt um það samband sem við vildum svo gjarnan efla og styrkja og ég ætla ekki að segja að sé ekki neitt en við viljum gera betur þar, sem er vitneskja neytenda um uppruna matvælanna. Nú getum við skipst á skoðunum um trúarbrögð í þessu, hvort það eigi að beita tollum eða beinum stuðningi eða einhverju slíku, setjum það til hliðar. Við gerum hérna mjög merkilega tilraun með grænmetisframleiðsluna þar sem við fellum niður tolla og tökum upp beinan stuðning. Samt er veruleikinn einhvern veginn svona, að við höfum stöðugt gefið eftir í markaðshlutdeildinni fyrir papriku og erum að gefa verulega eftir í tómötunum en við höldum dampi í gúrkunni. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig hann horfir á það. Hefur okkur mistekist í þessu efnum? Hvers vegna ryður ekki íslenska framleiðslan algjörlega út innflutningi? Eins og hv. þingmaður sagði þá trúum við á þessi gæði, við viljum öflug bú og öfluga bændur og þannig er hugur neytenda, ég efast ekkert um það. En af hverju er þá þessi staða komin upp? Hvað mistókst okkur?