Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Thomas Möller (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða fjármálaáætlunina frá sjónarhóli þingmanns sem hefur alla ævi starfað í einkageiranum. Ég tel hollt að líta á rekstur ríkisins eins og að það væri Ísland ehf. eða besta landi í heimi ehf. Hluthafarnir eru kjósendur, þingmenn eru stjórnarmenn og ráðherrar eru framkvæmdastjórar og einn þeirra er forstjóri. Það fyrsta sem ég myndi reka augun í er að það eru 12 framkvæmdastjórar í þessu litla fyrirtæki en þeir eru með 1.000 manns í vinnu bara í yfirstjórn. Svo vekur athygli að gert er ráð fyrir hallarekstri í tíu ár í röð, sem myndi setja hvaða fyrirtæki sem er í gjaldþrot. Nú er ríkissjóður rekinn með 120 milljarða halla á ári, 330 milljónir á dag, 14 milljónir á klukkustund. Bara á meðan þessi þingfundur stendur aukast skuldir ríkisins um 100 milljónir sem eru teknar að láni á hæstu vöxtum á Vesturlöndum. Börnin okkar greiða síðan þessar skuldir á hæstu húsnæðisvöxtum á Vesturlöndum.

Virðulegi forseti. Ég vil þó geta þess að það er margt vel gert í þessum rekstri: Sameining skattumdæma og sýslumanna, Stafrænt Ísland og flutningur ríkisstarfsmanna í opin rými. En þar með er sagan sögð. Ljóst er að það er ekki boðlegt lengur að skattleggja almenning meira, enda erum við skattpíndasta þjóð á Vesturlöndum að Svíþjóð undanskilinni. Að mínu mati mætti reyndar skattleggja auðlindirnar aðeins meira enda fáar þjóðir eins gjafmildar á auðlindir og Íslendingar.

En hvað þarf að gera? Það þarf að minnka yfirbyggingu ríkisins í þessu smáríki miklu meira en boðað er í þessari áætlun. Þar er af nægu að taka, alls staðar eru sparnaðarmöguleikar. Einkarekið fyrirtæki væri löngu búið að grípa í bremsurnar og breyta rekstrinum. Það gengur ekki lengur að Seðlabankinn sé á bremsunum meðan ríkissjóður er með bensíngjöfina í botni. Prófið þetta á bílnum ykkar. Viðreisn hvetur til þess að þessu verði breytt og við erum reiðubúin til samstarfs um þetta brýna mál.