Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. „Meginmarkmið hagstjórnar á næstu misserum verður að endurheimta verðstöðugleika með sem minnstum efnahagslegum tilkostnaði,“ segir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta. Verðbólgumarkmiðið er 2,5%. Ég verð að segja að rósrauðara markmið er varla hægt að finna á þessari blessuðu jarðarkringlu.

Skoðum aðeins hvað þarf til þess að ná þessu markmiði. Verðbólgan hefur undanfarin þrjú ár hækkað að meðaltali um 0,6% í hverjum mánuði. Það er meðaltalsverðbólga upp á 7,5%. Skrýtið hvernig verðbólgan virðist vera reiknuð, frá febrúar til febrúar. Það eru í rauninni 13 mánuðir undir í þessari ársverðbólgu — mjög spes, en þannig er það alla vega reiknað. Meðaltalið undanfarið ár er hins vegar rétt tæplega 0,8% með ársverðbólgu upp á 10,2% til og með febrúar sl. Til að ná verðbólgunni niður í 2,5% þá má verðbólgan ekki vera hærri en 0,2% í hverjum mánuði, eða þrefalt lægri en meðaltal undanfarinna þriggja ára og ferfalt lægri en hún hefur verið undanfarið ár.

Ef við gefum okkur að það verði meðaltalsverðbólga næstu sex mánuðina, 0,6% í hverjum mánuði, hver verður verðbólgan þá? Hún verður 8,1%. Ætlar ríkisstjórnin að monta sig af 8,1% verðbólgu af því að það er búin að vera meðaltalsverðbólga? Þetta er einhvers staðar á því bili sem við sjáum að við verðum komin í verðbólgustiginu í lok árs, því að næstu fimm til sex mánuðir í verðbólgunni, þeir mánuðir sem eru að detta út úr ársverðbólgunni, eru í raun mjög stórir mánuðir. Það varð mjög mikil hækkun á verðbólgu á þeim mánuðum. Því þurfa aftur að koma inn háir mánuðir til að viðhalda sömu verðbólguprósentu og nú er, og því eru meiri líkur á að hún muni lækka á næstu fimm mánuðum miðað við það, sem er mjög jákvætt. En eins og ég segi, ef það verður meðaltalsverðbólga næstu sex mánuði þá verðum við komin niður í 8,1% eða svo.

Samkvæmt spá Hagstofunnar mun verðbólgan vera komin niður í 3% árið 2025 og 2,6% árið 2026. Það er hins vegar mjög erfitt að sjá hvernig í ósköpunum það getur gengið eftir miðað við að þá er einna mestur kraftur í uppbyggingu nýja Landspítalans, eða um 30 milljarðar sem er næstum tvöföldun miðað við núverandi fjárheimildir í heilbrigðiskerfinu eins og þarna á við. Einnig á að bæta við rúmlega 30 milljörðum í vegaframkvæmdir á áætlunartímanum og mikill kraftur verður einnig að vera í íbúðafjárfestingu til að ná niður þeim skorti sem er á húsnæðismarkaði. Svo er gert ráð fyrir mikilli fjárfestingu í orkuframleiðslu og það bara hljóta að vera einhver þensluáhrif af þessum framkvæmdum.

Svo kemur eitt sem ég skil ekki — þetta er stórkostlega merkilegt — á málefnasviði almanna- og réttaröryggis á að auka framlög um 9 milljarða, úr 35 milljörðum upp í 44 milljarða árið 2025. Sagt er að þetta sé varanlegt, en einhverra hluta vegna lækkar þetta um milljarð í fjármálaáætluninni árið 2026 og dettur aftur niður í 35 milljarða 2027 og 2028. Þessir varanlegu 9 milljarðar í almanna- og réttaröryggi hverfa sem sagt aftur árið 2028, merkilegt nokk. Ég veit ekki hvort þetta er ritvilla eða ekki en mér finnst það ólíklegt miðað við að 2027 lækkar líka um milljarð. Hver veit — þetta er mjög spes. Kannski eru einhverjar framkvæmdir þarna undir sem hverfa á þessum tíma, en það er mjög ógreinilegt og ekki hægt að lesa það úr fjármálaáætluninni á svo einfaldan hátt. Það virðist vera að þetta séu bara þessar stóru tölur sem eru að koma þarna inn, sem eiga að vera varanlegar en eru það síðan ekki. Það verður mjög gaman að skoða þessa fjármálaáætlun í fjárlaganefnd á næstu mánuðum.

Í stuttu máli eiga stór opinber fjárfestingarverkefni að fara úr 70 milljörðum kr. árið 2022 upp í rúmlega 150 milljarða kr. árið 2026. Á sama tíma á verðbólga að lækka úr tveggja stafa tölu niður í 2,6%. Það er alveg hægt að segja að þetta séu mikilvæg verkefni sem þarf að sinna á einn eða annan hátt, en það er ekki beint hægt að segja að það sé verið að draga úr þenslu með þessum verkefnum nema það sé aðhald einhvers staðar annars staðar sem vegur upp á móti þessum 80 milljörðum sem eru að bætast við. En það er ekkert sem nær þeim skala í kynningunni á þessari fjármálaáætlun og kemst ekki einu sinni nálægt því.

Setjum þetta aðeins í samhengi. Árið 2022 var opinber fjárfesting 151 milljarður, á verðlagi þess árs. Miðað við þjóðhagsspá á opinber fjárfesting að minnka í ár og aukast svo einungis um í kringum 2% á ári til ársins 2026. Miðað við að þessi stóru fjárfestingarverkefni verði komin upp í heila 150 milljarða á núverandi verðlagi þá þýðir það að nánast engar aðrar framkvæmdir verða í gangi af því að þessi sérstöku opinberu fjárfestingarverkefni sem eru valin þarna á bls. 30 dekka þessa 150 milljarða. Hvað með allt annað; þjóðarleikvanginn, samhæfingarmiðstöðina, húsnæði fyrir geðdeild Landspítala, sveitarfélögin og ýmislegt annað sem er í bígerð? Þetta gengur ekki alveg upp. Til að útskýra þetta á skýrari hátt þá sjáum við fram á einhverja villu þarna. Einhver er ekki að segja okkur af hverju það er 80 milljarða skekkja í opinberum fjárfestingum. Aftur er þetta annað sem verður rosalega gaman að komast að í vinnu fjárlaganefndar.

Hvað þýðir þetta samt? Í andsvörum mínum við fjármálaráðherra áðan sagði ég að mér fyndist alla vega vera komin skýring á því, með þessari fjármálaáætlun, að Seðlabankinn hefði hækkað stýrivexti um 1%. Fjármálaráðherra segir að fjármálaáætlunin hafi komið fram eftir að stýrivaxtahækkunin var ákvörðuð, en sagði líka að Hagstofan hefði fengið smá upplýsingar og drög að fjármálaáætluninni til að hafa sem hluta af sinni þjóðhagsspá — auðvitað. Er þá fjármálaráðherra að segja að Seðlabankinn hafi ekki vitað hvernig fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar yrði en Hagstofan hafi vitað það, og þar af leiðandi hafi Seðlabankinn ekki vitað hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera þegar bankinn ákvað að hækka stýrivexti um 1%? Mér finnst það í besta falli ólíklegt, en ef það er satt þá er það jafn alvarlegt samráðsleysi og skorturinn sem er á öllu öðru sem viðkemur þeirri ákvörðun. Að mínu mati er því Seðlabankinn annaðhvort að hækka stýrivexti um 1% út af fjármálaáætluninni eða þrátt fyrir hana, því það hefði átt að vera samráð. Ef það var ekkert samráð, þá er rosalega alvarlegt út af fyrir sig að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 1% án þess að vita hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Ef það var samráð, þá verður maður að draga þá ályktun að 1% stýrivaxtahækkun hafi verið vegna þess að það var ekki tekið nægilega djúpt í árinni í fjármálaáætluninni.

Ég sé ekkert annað en að við séum með ríkisstjórn sem er að keyra á fullu í hálku, á naglalausum dekkjum, og fjármálaráðherra og ríkisstjórn segi: Heyrðu, frábært, best að gefa allt í botn í þessum aðstæðum — æðislegt. Það er vissulega sagt í fjármálaáætlun að stjórnvöld ætli að leggjast á sveif með Seðlabankanum og í áætluninni séu skýr merki um aðhald. Þótt það sé sagt og skrifað hérna þá þýðir ekki að það sé rétt. Það er allt annað mál. Það á að forgangsraða og draga úr þensluhvetjandi aðgerðum, nema auðvitað þessum risavöxnu fjárfestingarverkefnum. Það á að tvöfalda almennu aðhaldskröfuna úr 1% í 2%, nema á skóla, lögregluna og fangelsi, og auðvitað er engin aðhaldskrafa á heilbrigðis- og öldrunarstofnanir og almanna- og sjúkratryggingar. Þá erum við eiginlega bara búin með mestallt umfang ríkisfjármálanna. Það er ekkert svo rosalega mikið eftir, þegar allt kemur til alls, til að setja þessa aðhaldskröfu á. Hvers konar aðhald erum við þá eiginlega að tala um? Ég er ekki að gagnrýna það að þessi málefnasvið séu undanþegin aðhaldskröfu, ég hef allt aðra sýn á það hvernig eigi að sinna þeim verkefnum sem þar eru undir. Ég er bara að segja að það sé rangt að kalla það aðhald sem skiptir einhverju máli í samanburði við 1% hækkun stýrivaxta.

Við þurfum að staldra aðeins við og hugsa um hvað við erum að gera og af hverju. Við búum nefnilega við ansi marga samfélagslega veikleika. Það er skortur á húsnæði, langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu, fátækt fólk er enn að bíða eftir réttlæti, einkaaðilar græða gríðarlega á nýtingu sameiginlegra auðlinda og svo eru alþjóðlegar áskoranir umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr, bæði hvað varðar flóttafólk í heiminum og umhverfismál.

Nú ætla ég að gerast svo djarfur að segja að ég sé sammála mörgum af þeim áherslum sem birtast í þessari fjármálaáætlun. Það er vissulega áherslumunur á því hvernig mér finnst að útfærslan ætti að vera. Það er fjárfesting í heilbrigðisþjónustu en hverfandi lítil miðað við fjárfestingu í steypu í heilbrigðiskerfinu, sem er mjög mikil í samanburði. Þar er áherslumunur. Stóriðjustefnan er galin. Ég er alls ekki sammála hvað hana varðar, en svo er ýmislegt þarna á milli. Ég get verið sammála ýmsu varðandi skólamálin og nýsköpunina — frábært — alveg tvímælalaust nauðsyn á því. Svo er annað í hina áttina sem gengur ekki alveg upp og ég skil ekki hvernig fúnkerar með tilliti til efnahagslegrar þróunar. Lykilatriðið hérna er að það er verið að sinna ákveðnum mikilvægum áskorunum að einhverju leyti, en á sama tíma er líka þykjustuleikur í gangi um eitthvert aðhald í þessari fjármálaáætlun. Sem dæmi er algjör blekking að verðbólgan fari niður í verðbólguviðmið á gildistíma þessarar fjármálaáætlunar. Það þyrfti eitthvert utanaðkomandi kraftaverk að gerast til þess að það yrði að veruleika.

Forseti. Það er áhugavert að skoða þróun ríkisfjármála. Sem dæmi, vissi forseti að verg landsframleiðsla hefur hækkað að meðaltali um 8,2% á verðlagi hvers árs frá 1995? Á sama tíma hafa útgjöld ríkisins hækkað um 9,7% og tekjur um 9,5%. Gjöld hafa verið að meðaltali 30,9% af vergri landsframleiðslu á meðan tekjurnar hafa einungis verið 30,3%. Það er 0,6% munur á vergri landsframleiðslu á gjöldum og tekjum yfir næstum því 30 ára tímabil. Ef við berum saman fjárlög 2023 þá eru bæði gjöld undir meðaltalinu og tekjur þó nokkuð undir meðaltalinu. Meðaltalið er 30,3% í tekjum, en núverandi hlutfall er 28,2%. Því er tekjuhliðin tvímælalaust dálítið veik með tilliti til sögulegs samhengis. Á mannamáli þýðir þetta að síðan 1995 hafa tekjur á núvirði verið 650 milljörðum lægri en útgjöld. Bæði tekjur og gjöld hafa smám saman hækkað meira en landsframleiðsla á undanförnum árum, en gjöld meira en tekjur. Það er mjög áhugavert. Þetta er verðbólguhvetjandi þarna undir; 650 milljarðar sem þarf að dekka á þessum tíma.

Ég þarf að sleppa einhverju þegar allt kemur til alls. Ég er með smá pælingar um sviðsmyndagreininguna þarna og kem kannski inn á það í andsvörum við ráðherra. Að lokum langar mig að fara aðeins yfir þessa einfaldari framsetningu sem bæði þingmenn og ráðherra hafa kallað eftir. Ég er að vissu leyti sammála því en ég held að fókusinn verði alveg örugglega rangur og við séum örugglega ekki sammála um það hvernig eigi að einfalda framsetningu fjármálaáætlunar. Að mínu mati þurfum við að einbeita okkur að tveimur verkefnum, annars vegar þeim lögum sem við erum með og hvernig við getum sinnt lögbundinni þjónustu. Það er ákveðin greining á þessum heildarramma sem við erum með, hvort við erum að ná að sinna lögbundinni þjónustu. Það er að mestu leyti eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga, sem við ættum í fjárlaganefnd og á Alþingi að vinna reglulega. Síðan er stefnumörkun stjórnvalda það sem kemur fram í fjármálaáætlun. Hún er langt frá því að vera það sem hún ætti að vera. Hún ætti að vera miklu viðameiri og allt annað sem er í núverandi fjármálaáætlun má missa sín að mjög miklu leyti. Einbeitingin að stefnumörkun stjórnvalda um kostnaðar- og ábatagreininguna, um mælikvarðana og þess háttar og hver markmiðin eru, það er það sem við þurfum að fjalla miklu meira um, með því t.d. að hugsa sem svo að ef við skoðum bara sögulega meðalþróun á vergri landsframleiðslu og líka gjöldum og tekjum — ef við reynum að hætta að horfa einhvern veginn alltaf á efnahagssveifluna fram og til baka og til þess að reyna að elta hana — þá gætum við kannski, ef við myndum miða við svoleiðis tölur og langtímaþróun, hætt að elta hagsveifluna og ýkja hana í báðar áttir. Þá væri hægt að segja: Við ætlum að stefna að þessari 8,2% hækkun miðað við tölur í síðustu fjárlögum, þannig er það sögulega. Svo greinum við það kannski eftir á hvort langtímaþróunin sé eitthvað að breytast á hverju ári. Þá erum við bara að tala um núll komma eitthvað prósent sem verið er að breyta á hverju ári, sem vænta má fyrir næsta ár. (Forseti hringir.) Svo söfnum við fyrir aukaútgjöldunum þegar vel árar og eigum fyrir hrunárunum þegar þau gerast.