143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:59]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma og mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun. Mig langar til að gera þá áætlun að umræðuefni í smá framsögu.

Eins og hefur komið fram í andsvörum hjá mér tel ég ákaflega mikilvægt að framkvæmd samgönguáætlunar sé alfarið og að öllu leyti á hendi hins opinbera, þ.e. að það séum við sem höfum lýðræðislegt umboð til þess og við sem í þingsal sitjum hverju sinni sem höfum áhrif á forgangsröðun til samgönguáætlunar og getum haft áhrif þar á á fjögurra ára fresti í mótun samgönguáætlunarinnar. Þetta tel ég gríðarlega mikilvægt.

Vandinn sem ég sé við einkaframkvæmdir eða fjölbreytt rekstrarform í samgönguinnviðum er fyrst og fremst sá að við förum að binda uppbyggingu samgönguinnviða í samninga við alls kyns aðila, fyrst og fremst einkaaðila, til lengri tíma og við semjum frá okkur forsvar og vald yfir framkvæmd samgönguáætlunar. Því meira sem verður um það, þeim mun meira töpum við sem samfélag, vegna þess, eins og ég hef komið áður inn á í andsvörum, að gróði er ævinlega hvati slíkra framkvæmda, væntingar um hag eða hagnað, hvort sem hann verður innleystur sem hlutafé á einhverjum lokapunkti eða leystur út sem hagnaður á hverju ári, arð sem er skilað á rekstrarreikningi. En það þarf ekki endilega bara að vera þannig, það getur vel verið í gegnum það að einhverjir nokkrir aðilar setjist á feita launatékka í hverjum mánuði án þess að hafa mikið fyrir því. Þannig getur gróðinn líka birst.

Það sem mig langar hins vegar að gera sérstaklega að umtalsefni, fyrir utan þær megináherslur sem ég vil leggja varðandi framkvæmd og skipulag samgönguáætlunar, er mikilvægi almenningssamgangna fyrir landið allt og að það sé í vegáætlun skilgreint mjög vandlega.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi svartan blett eða gat í almenningssamgöngum sem væri í uppbyggingu þeirra á Suðurnesjum. Ég vil nefna annað gat sem er á Austurlandi og Austfjörðum. Ef grannt er skoðað hjá Strætó bs. sést að þar er ekki leið til að komast frá Egilsstöðum til Hafnar í Hornafirði, með almenningssamgöngum. Það er miður. Með öðrum orðum, hringurinn er ekki fær með strætó. Það er mjög miður og þarf auðvitað að laga. Leiðin til að laga það er fyrst og fremst sú, eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á, að tryggja landshlutunum það fé sem eðlilegt er til reksturs almenningssamgangna af þessari áætlun. Það fé skilar sér ekki sem skyldi til að mynda í mitt kjördæmi, Norðausturkjördæmi, það skilar sér ekki þangað, því miður.

Í uppbyggingu almenningssamgangna í kringum höfuðborgarsvæðið er gert ráð fyrir fé í þróunarkostnað upp á tugi milljóna sem ekki er gert ráð fyrir í Norðausturkjördæmi. Ekki er gert ráð fyrir neinum þróunarkostnaði þar, og hefði ég nú haldið að þar væri mun meiri þörf á einhvers konar mótun og þróun. Þetta er mjög sérstakt og þarf auðvitað að laga. Það er því einhvers staðar misvægi í því hvernig fé fylgir með uppbyggingu almenningssamgangna um landið, það þarf að laga, vegna þess að þær eru einstaklega mikilvægar.

Annað sem ég vil nefna í þessu samhengi er mikilvægi almenningssamgangna í þágu ferðaþjónustu. Ég vil þá ekki horfa á almenningssamgöngurnar í þágu ferðaþjónustu heldur ferðaþjónustu í þágu almenningssamgangna. Núna blasir við að í ár munum við fá milljón gesti til landsins, það er þrefaldur íbúafjöldi landsins, og allt sem þeir gera, allt sem þeir nota sér er til eflingar þess sem þeir nota. Með öðrum orðum, ef þeir færu allir í strætó gætu verið blússandi almenningssamgöngur um allt land sem við þyrftum nánast ekkert að borga fyrir og við gætum nýtt okkur, rétt eins og staðreyndin blasir við að Íslendingar geta valið úr ótrúlega mörgum áfangastöðum frá Keflavíkurflugvelli í gegnum uppbyggingu leiðakerfis Icelandair og fleiri flugfélaga, það er út af túrismanum, þau flytja 2,5 milljónir farþega á hverju ári og við höfum þetta val.

Við fáum sem sagt í raun og veru far með uppbyggingu ferðaþjónustu í gegnum Keflavík. Með nákvæmlega sama hætti ættum við að geta fengið far með almenningssamgöngum um allt land sem hafa hag sinn af ferðaþjónustu. En það þýðir að snúa þarf almenningssamgöngunum nokkuð að hagsmunum ferðaþjónustunnar, það þarf að snúa þeim þannig að þær hafi viðkomu á t.d. helstu áfangastöðum og í ferðaskipulagi og leiðaskipulagi almenningssamgangnanna sé það sýnilegt sem mögulegt aðdráttarafl ferðafólks og gesta okkar. Þetta tengist síðan aftur inn á flug og ferjur eins og komið hefur verið inn á, innanlandsflugið gæti til dæmis eflst mjög ef hægt væri að beintengja það ferðaþjónustu, það gæti eflst mjög okkur öllum til hagsbóta, og sama er um ferjur.

Annað atriði sem ég vildi draga fram í tengslum við samgönguáætlun er mikilvægi samgangna fyrir byggðir úti um landið. Hér er rætt um mikilvægi uppbyggingar samgönguinnviða við höfuðborgarsvæðið; uppbygging Sundabrautar, tvöföldun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og ýmsar aðrar samgöngubætur þannig að höfuðborgarbúar geti komist sem biðraðafríast í sumarbústaði á sumrin og á þeim fáu álagspunktum sem eru þegar borgarbúar flykkjast úr borginni. Það er vissulega mikilvægt og ég ætla ekki að gera lítið út því að fólk geti komist af stað úr borginni og heim aftur nokkuð tafalaust. En samgöngubætur úti um landið snúa hreinlega að því hvort mögulegt sé að búa á staðnum, hvort hægt sé að lifa þar, þær snúa hreinlega að því að fólk geti komist lifandi milli áfangastaða, ekki með einhverjum fimm til tíu mínútna töfum. Þetta er ákaflega mikilvægt. Ég vil því setja aðeins meiri forgang í uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða úti um landið í þágu byggðanna. Þá er ég til að mynda að hugsa um Fjarðarheiðargöng, um veg inn í Borgarfjörð eystri, ef við ætlum að hafa hann einhvern veginn í byggð, Seyðisfjörð líka. Og að halda stöðum í byggð á Vestfjörðum. Það er nefnilega ekki hættulaust að komast þar á milli byggða og iðulega varla mögulegt, sérstaklega að vetri. Það þarf að laga.

Talandi um hringveginn sjálfan þá er hann líka svo gott sem ófær, sérstaklega austan lands. Þar er enn möl á nokkrum köflum, nokkuð löngum köflum meira að segja, og erfitt að komast. Breiðdalsheiði er ekki rudd, lítið rudd, skulum við segja, og erfitt er að komast þar um. Hringvegurinn er með öðrum orðum ekki alveg fær. Við þurfum auðvitað fyrst og fremst að byggja hann upp og klára hann áður en við förum að ljá máls á einhverjum fyrirbærum eins og hálendisvegum eða nokkru öðru slíku.

Mig langar að nefna einn sérstakan blett á hringnum, þ.e. Öxi og uppbyggingu heilsársvegar um Öxi. Ég velti fyrir mér hvort það sé besta mögulega leiðin, og þá er ég að sjálfsögðu að hugsa um byggðirnar og byggðina í Breiðdalsvík. Ég velti fyrir mér hvort mögulegt sé að horfa til ganga undir Breiðdalsheiði til að halda Breiðdalsvík inni í þessum hring og vernda þar af leiðandi byggð, vegna þess að Breiðdalsvík er einmitt ein af þessum brothættu byggðum, ein af þremur byggðum sem Byggðastofnun leggur sérstaka áherslu á að vernda með sérstökum aðgerðum í sömu púllíu og Raufarhöfn og Bíldudalur. Þannig að þetta er mikilvægt. (Gripið fram í: Klaustur.) Já, og Klaustur er líka, fyrirgefið.

Mig langar líka til að draga fram annað atriði í þessu samhengi sem er mikilvægi vistvænna samgangna, þ.e. að við bjóðum upp á möguleika vistvænna samgangna. Það þýðir að áherslan í samgönguáætlun þarf að snúa að fjölbreyttum samgönguinnviðum, við séum ekki einungis að horfa á bílinn, einkabílinn, eða þá almenningssamgöngur, rútur, heldur önnur form til að komast á milli staða, göng og hjólaleiðir sérstaklega, leiðir fyrir minni farartæki og annað slíkt.

Þegar við tölum um vistvænar samgöngur erum við að tala um fjölbreytta samgönguinnviði. Mig langar til að leggja fyrir eina mynd, það er synd að hv. þingmenn Suðurlandskjördæmis séu flestir farnir núna, þeir voru í svo miklum fjölda hérna áðan, en mig langar til að teikna upp mynd af hjólaleiðum um Suðurland þess vegna alla leið austur á Höfn — ég er auðvitað að stela þessu frá snillingnum Andra Snæ Magnasyni, þeim merka rithöfundi. Þetta er nú allt flatt, landið er nánast eins marflatt og Holland þegar yfir Hellisheiðina er komið, en leiðin þyrfti alls ekki endilega að fylgja þjóðveginum heldur mætti fara einhverjar aðrar leiðir. Það sem ég sé fyrir mér eru möguleikar til allt annarrar tegundar ferðalaga um svæðið, sem leiðir til allt annars búsetulandslags og byggðamynsturs á svæðinu. Sjáið fyrir ykkur ferðafólk sem mundi ferðast um Suðurland og dagleiðirnar væru 20–25 km í staðinn fyrir 250 km eins og þær eru í dag. Ferðafólk sem þyrfti að æja, stoppa næturlangt á 20–25 km fresti. Uppbygging bændagistingar um allt, litlir pöbbar og gistihús og litlir veitingastaðir sem bændur seldu vörur beint frá býli til hjólandi ferðalanga sem væru í hjólatúr um Suðurland, auðvitað við svolítið „extrem“ aðstæður. En það er kannski eitthvað sem höfðar til margra.

Ég ætla að láta þetta duga núna. Það er margt sem ég hefði viljað tala um meira en tíminn er úti.