154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:03]
Horfa

María Rut Kristinsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir svarið. Mig langar líka í þessu samhengi að grípa kannski orð hans frá því í gær þar sem hann minntist á kjör kvennastétta í þessu samhengi. Við vitum að til að brúa þetta bil er leikskólinn auðvitað lykilatriði og það þarf að manna leikskólana. Ég held að þetta sé algjör lykilbreyta þegar kemur að því að gera þá að aðlaðandi vinnustað. Viðreisn var á sínum tíma með þingsályktun um kjör kvennastétta sem var samþykkt en útþynnt í nefnd. Er einhver vinna í gangi hvað varðar að grípa þessi mál sérstaklega í þessu samhengi? Ég held að það sé svolítið tímabært að taka þessa umræðu um fæðingarorlofsmálin í takt við raunveruleikann. Það er mjög auðvelt að koma oft hérna og tala um hlutina út frá einhverjum tölum og mánuðum o.s.frv., en raunveruleikinn er sá að fólk er ekki að lifa sómasamlega í fæðingarorlofi og það er algjört basl að vera ungt foreldri á vinnumarkaði í þessu kerfi.