154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[16:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel þetta mikilvægt framfaraskref en tel ekki nógu langt gengið og geri einnig athugasemd við þá dagsetningu sem hér er sett. Þetta hefur svo sem komið fram í umræðunni um þetta mál fram að þessu en mér finnst rétt að gera það líka hér í ræðu. Miðað við tilurð og samhengi þessarar tillögu fannst mér ekki rétt að setja einhverja dagsetningu, að ef barn þitt fæðist fyrir 1. apríl eigir þú ekki rétt á þessari kjarabót. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt í samhengi hlutanna sem er að ríkisstjórnin gerir þessa breytingu sem lið í að liðka fyrir kjarasamningum og þar með að í raun styðja við efnahagsstöðu fólks í fæðingarorlofi, og þá er ekki rétt að miða það við einhvern skurðpunkt hér.

Við höfum svo sem farið svolítið vítt og breitt í þessari umræðu varðandi fæðingarorlofskerfið og hvernig það er upp sett og ég vil leyfa mér að gera það hér einnig vegna þess að eins og ég ræddi hér í andsvari áðan við hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur þá finnst mér það ekki senda góð skilaboð að vera með þessar hlutfallstölur, þ.e. að fæðingarorlof geti aldrei verið meira en 80% af tekjum viðkomandi vegna þess að það sendir þá þau skilaboð að barneignir eigi í raun að fela í sér ákveðinn tekjumissi upp á 20%. Ég tel að það sé ekki rétt að nálgast fæðingarorlofskerfið með þessum hætti vegna þess að við viljum hafa jákvætt og hvetjandi umhverfi fyrir barneignir. Við viljum ekki að það kosti fólk beinlínis tekjur og peninga að eignast börn og við ættum í raun og veru að styðja mun ríkulegar við börn og barnafjölskyldur heldur en við gerum ef við viljum viðhalda fæðingartíðni vegna þess að ef það ætti að fara að kosta stórar fjárhæðir og einnig tekjumissi þá eru þetta auðvitað ekki góðir hvatar til barneigna fyrir utan það að þetta bitnar einna helst á konum, þessi tekjumissir.

Það er auðvitað ákveðið jafnréttisskref að hækka þetta þak vegna þess að tekjumunurinn sem enn er til staðar milli kynjanna er þess valdandi að karlar taka síður fæðingarorlof en konur vegna þess að þeir eru frekar tekjuhærri en konur. Þetta er auðvitað ekki algilt en þetta er samt sem áður normið og þar af leiðandi er mikilvægt að hækka þetta þak. Ég hefði talið fara betur á því að hækka meira. Mér finnst 700.000 kr. ekki vera sérlega hátt í verðlagi dagsins í dag og eins og farið hefur verið yfir þá hefur þetta þak ekki hækkað í ansi langan tíma. Það breytir því ekki að auðvitað er jákvætt að það sé verið að hækka þetta þak. Þetta er mikilvægt skref og ég vil auðvitað líka benda á að það er gott að mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi sé líka að fara að hækka samhliða. Það er líka jákvæð þróun.

Að því sögðu finnst mér líka mikilvægt að hækka hið svokallaða gólf, þ.e. lágmarksgreiðslurnar, vegna þess að þar erum við raunverulega að tala um mikla jöfnunaraðgerð þegar kemur að stéttaskiptingu, þegar kemur að því að berjast gegn fátækt. Það eru ýmsar tegundir greiðslna til foreldra sem eru fyrir neðan allar hellur og geta hvorki verið foreldrum né börnum þeirra fyrir bestu. Mér finnst þetta vekja upp áleitnar spurningar um hvenær stendur til að fara í stærri og meiri endurskoðun á þessu kerfi vegna þess að það er ýmislegt sem þarf að bæta til að við stöndum framar í alþjóðlegum samanburði en líka bara til að við séum með betra samfélag og barnvænna samfélag heldur en við höfum nú þegar. Þar nefni ég sérstaklega þetta gólf. Ég er andsnúin þessu hlutfalli. Þó að mér finnist rétt að hafa hámarksupphæð sem fólk getur fengið á mánuði þá er ég andsnúin því að það geti einungis verið um 80% af launum viðkomandi að ræða vegna þess að mér finnst rangt af ríkinu að segja að bara eðli málsins samkvæmt feli það í sér tekjuskerðingu að eignast börn. Mér finnst algerlega ruglað að við viljum hafa það þannig.

Síðan vil ég árétta mikilvægi þess að konur geti tekið allt að mánuð fyrir fæðingu í orlof án þess að það skerði rétt konunnar eða hins barnshafandi einstaklings til fæðingarorlofs eftir fæðingu. Fyrir þessu eru margar og mikilvægar ástæður. Það er konu eða barnshafandi einstaklingi og barni fyrir langsamlega bestu að viðkomandi geti hvílt sig vel fyrir fæðingu. Það eru oft alls konar vandamál sem gera vart við sig sem teljast ekki endilega veikindi í skilningi þess orðs fyrir fæðingu, sérstaklega á síðasta mánuðinum fyrir fæðingu, sem gerir það að verkum að það er réttast að fara í orlof. Svo er ekki gott að konur eða barnshafandi einstaklingar séu að fara í veikindaleyfi og ganga á veikindarétt sinn fyrir barneign. Sá réttur á ekki að vera nýttur í það ef ekki er um veikindi að ræða heldur bara t.d. verulega þreytu vegna meðgöngu og það búa ekki allar konur svo vel að geta farið í veikindaleyfi í mánuð fyrir fæðingu. Þetta er ótrúlega mikilvægt jafnréttismál sem ég tel að þurfi að breytast sem allra fyrst og það er mér í raun bara óskiljanlegt hvers vegna breytingartillaga okkar Pírata þess efnis var ekki samþykkt 2020 vegna þess að allir helstu sérfræðingar bentu á að þetta væri mikilvægt atriði sem ætti að taka til greina og ætti að gera að lögum, þ.e. að leyfa konum að fara í barneignarleyfi án þess að það skerði rétt þeirra vegna þess að eins og staðan er núna þá geta barnshafandi einstaklingar farið í fæðingarorlof mánuði fyrir fæðingu en það er þá tekið af rétti þeirra til fæðingarorlofs eftir fæðingu. Mér finnst ekki sanngjarnt að barnshafandi einstaklingur þurfi að missa tíma og að barnið þurfi að missa tíma með foreldri sínu út af barneignarleyfi fyrir fæðingu. Það er ekki líku saman að jafna.

Það er hins vegar mjög mikilvægt fyrir barnshafandi einstakling og barnið að það sé hægt að fara í þetta leyfi fyrir fæðingu upp á hvíld og upp á að fæðingin takist vel. Það minnkar líkur á einhverjum vandræðum og það eykur líkur á að viðkomandi jafni sig hratt og vel eftir fæðinguna og það lækkar spennustigið í kringum hana alla, fyrir utan að það er ótrúlega mikið mál að búa sig undir að fæða barn. Það er bara ótrúlega mikið af útreikningum og veseni sem felst í því þannig að mér finnst það vera tvennt í raun sem ætti að vera mikið forgangsmál og ég vona að verði tekið til alvarlegrar skoðunar sem allra fyrst. Það er annars vegar þessi mánuður og hins vegar að hækka gólfið allverulega, og síðan auðvitað finnst mér að þetta þak ætti að vera hækkað líka. En af þeim tveimur aðgerðum sem ég myndi fara í fyrst, sæti ég í þessum ráðherrastól, þá væru það þessar tvær, að koma á mánaðar barneignarleyfi sem skerðir ekki barneignarleyfi eftir fæðingu og hins vegar að hækka gólfið verulega vegna þess að þar tel ég að sé verulegt verk að vinna.