140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni þá skýrslu sem rædd var í atvinnuveganefnd í gær sem eins og hér hefur komið fram var beðið um af nefndinni að sérfræðingar gerðu. Það er alveg rétt að ýmislegt kemur fram í þessari skýrslu. Mér finnst það ekkert óskaplega alvarlegt eða nýtt að það skuli koma fram að við séum að nota gömul gögn. Við vitum það og því miður er það hluti af hagkerfi okkar að vinna með gömul gögn. Við erum með gögn frá Hagstofunni fyrir árið 2010 sem eru lögð fram sem grunnur. Síðan kemur líka fram að fjármagnskostnaður sé vanmetinn. Þetta eru allt saman hlutir sem við vissum. En eins og ég segi er það grundvallaratriði, hvort sem verið er að leggja á skatta eða gjöld, að vita hver skattstofninn er og mesta gagnrýnin í þessari skýrslu er á þessi gömlu gögn.

Virðulegi forseti. Þetta er í raun og veru ekki flóknara en það að þó að þessi aðferð sé notuð og við notum gögn frá Hagstofunni sem komu ekki fyrr en í október/nóvember þá höfum við samt sem áður samtímagögn í dag fyrir árið 2011 og þar eru tölurnar einfaldlega þessar: Tekjur af veiðum og vinnslu eru 250 milljarðar á síðasta ári. Gjöldin eru 175 milljarðar kr. í sjávarútvegi plús eða mínus 1, 2 eða 3 milljarðar þegar lokauppgjör kemur fram. Framlegðin miðað við þetta var hvorki meira né minna en 75 milljarðar á síðasta ári. Það er sú tala sem við getum unnið með. Hvað er svo hóflegt veiðileyfagjald af þessari tölu? Það er verkefni okkar alþingismanna, ég minni á það, virðulegi forseti, og andmæli því að frumvörpin séu ónýt og að ekki sé hægt að notast við þau. Það er að sjálfsögðu hægt enda var meginþátturinn sem notaður var tillaga sáttanefndar svokallaðrar sem LÍÚ, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri grænir og margir fleiri skrifuðu upp á.

Hér kom fram við 1. umr. málsins, m.a. frá formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem hann lýsti því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi hækka veiðileyfagjaldið. Ég er sammála því, en svo eigum við eftir að skilgreina hvað sé hóflegt, hvað sé eðlilegt af þeirri 75 milljarða framlegð sem varð á síðasta ári.