140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[01:11]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að svara síðustu spurningu hv. þingmanns sem lýtur að því hvernig sé líklegt að ný ríkisstjórn bregðist við hvað þetta varðar þegar hún tekur við í fyllingu tímans, hvort sem það verður eftir fáeina mánuði eða eitt ár.

Auðvitað gerir sú aðferð sem núverandi hæstv. ríkisstjórn beitir í sambandi við þetta mál það að verkum að skuldbinding nýrrar ríkisstjórnar til að fylgja þeirri stefnu sem hér birtist verður engin. Ný ríkisstjórn hlýtur að líta svo á að hún hafi fullar heimildir til að taka nýjar ákvarðanir byggðar á öðrum forsendum en sú ríkisstjórn sem nú situr. Ef málið hefði verið unnið í einhvers konar sátt, ef það hefði haft annan aðdraganda og leitað hefði verið sátta um niðurstöðuna (Forseti hringir.) mundi málið auðvitað horfa allt öðruvísi við, en þar sem engin sátt er (Forseti hringir.) mun þetta skipulag núverandi ríkisstjórnar ekki lifa hana.