145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[10:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Menn hafa hrópað Icesave úr þessum þingsal nógu oft. Almenningur veit mætavel af leiðréttingunni svokölluðu og málefnum slitabúa. Almenningur veit af og finnur fyrir lágri verðbólgu og litlu atvinnuleysi.

Hvers vegna voru þá stærstu mótmæli Íslandssögunnar á mánudaginn? Er það vegna þess að Ríkisútvarpið er svo illa innrætt? Er það vegna þess að þjóðin misskilur allt málið? Nei, fólk sá glitta í fyrirhrunsárin í pólitíkinni og fólkið sagði nei. Það vildi ekki sama ástand. Fólk vill ekki viðhorfið og svörin frá ríkisstjórninni, ekki bara hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, heldur einnig öðrum, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra.

Það er einfaldlega ekki lengur nóg í íslensku samfélagi að höfða til efnahagstölfræði til að sefa almenning. Fólk vill ekki bara peninga og velmegun lengur, það vill siðbót í stjórnmálum, það vill betrumbætur, lýðræðisumbætur, kerfisbreytingar til hins betra. Það hefur kallað eftir því mjög lengi. Fólkið í landinu vill sjálft meiri völd yfir okkur á þingi og í ríkisstjórn. Það er okkar hlutverk að veita því það vald. Það er okkar ábyrgð og það er þannig sem við öxlum okkar ábyrgð, með því að viðurkenna það ákall og fylgja því eftir.

Það sem hefur sýnt sig best í þessu máli er að ríkisstjórnin og helstu verjendur hennar virðast ekkert hafa lært af þessu nema kannski að þeir hefðu átt að fela það betur. Hæstv. fráfarandi forsætisráðherra virðist hafa lært það eitt að missa ekki kúlið í viðtölum, hann hefur beðist afsökunar á því einu að hafa gert sjálfan sig að athlægi. Aðrir taka upp varnir fyrir hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Aðrir bölsótast út í fyrirspyrjendur, gagnrýnendur og Ríkisútvarpið. Ekki eru þeir beðnir afsökunar, ekki sjá menn að sér fyrir það hvernig þeir höguðu sér þegar sú gagnrýni og þær spurningar komu fram. Það er algjörlega einsýnt, óháð því hvað fólki finnst um starfsumhverfið hér að öllu jöfnu á vorin og þegar þinglok nálgast, að þetta starfsumhverfi verður enn erfiðara en venjulega. Í því felst engin hótun, heldur bara augljósar staðreyndir, virðulegi forseti. Ef ekki væri til staðar nein svokölluð málþófshefð, jafnvel þótt ekki væri venjan að tefja mál og búa til þrýsting og semja um mál við þinglok, eins og lengi hefur verið tilfellið hér, væri hætta á að sú hefð myndaðist nú.

Eins undarlega og það kann að hljóma í eyrum sumra er ástæðan heldur málefnaleg. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega opinberað viðhorf sem krefst tortryggni af hálfu annarra, sem krefst þess að þingmenn og almenningur og allir hagsmunaaðilar kryfji málin enn dýpra en ella, spyrji erfiðari spurninga en venjulega, sætti sig síður við svörin og tortryggi frekar þau svör sem berast þegar spurt er eða lögmæt gagnrýni borin fram.

Þetta verður áfram eitt af vandamálum ríkisstjórnarinnar við að koma í gegn þeim málum sem hún vill koma í gegn á þeim tíma sem er eftir af þessu kjörtímabili, hversu langt sem það verður. Allir þættir sem varða aðgerðir til losunar hafta verða nú tortryggilegri en þeir þyrftu annars að vera. Og það eru mjög lögmætar og réttmætar ástæður fyrir þeirri tortryggni, hún stafar af þeirri hegðun, þeim svörum og þeim viðhorfum sem hafa opinberast frá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli öllu. Það er réttmæt og nauðsynleg tortryggni. Auðvitað mun hún þvælast fyrir. Þessi ríkisstjórn er hluti af vandanum við að koma þessum málum í gegn, andstætt því sem hún sjálf fullyrðir.

Ég legg áherslu á að þetta er óháð leikendum, þetta er óháð persónunum í þessu máli. Þetta eru bara aðstæðurnar sem við búum við núna. Vantraustið er til staðar, tortryggnin er lögmæt og nauðsynleg — og vissulega til staðar. Og því miður verður maður að segja: Sem betur fer.

Vanhæfi ríkisstjórnarinnar og viðhorf hennar til þessa máls þvælist fyrir, öfugt við það sem hún sjálf heldur fram. Ef ríkisstjórnin sjálf metur verkefnin meira en eigin völd fórnar hún eigin völdum fyrir verkefnin. Manni sýnist að enn og aftur verði það einmitt öfugt.