149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

innleiðing þriðja orkupakkans.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ég er nú að leitast við að svara því sem hv. þingmaður spyr um. Það sem er umdeildast og það sem fyrirvararnir sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni snúast um varðar tengingu við raforkukerfi Evrópu. Hér er ekki aðeins búið að setja fyrirvara við sjálfa þingsályktunartillöguna eins og ég fór yfir áðan og vitnaði þar til Stefáns Más Stefánssonar, sem hv. þingmaður telur ekki ástæðu til að taka mark á í ljósi sögunnar ef ég á að meta orð hv. þingmanns þannig, heldur er líka búið að leggja fram frumvarp sem felur það í sér að sæstrengur verði ekki lagður til Íslands nema með samþykki Alþingis. Og það er töluvert önnur stefna en hv. þingmaður stóð sjálfur fyrir þegar hann fór til Bretlands og undirritaði sérstaka (SDG: Það er rangt.) viljayfirlýsingu um sæstreng með forsætisráðherra Bretlands á þeim tíma. Ég er á leiðinni til Bretlands, (Gripið fram í.) ég ætla ekki að undirskrifa viljayfirlýsingu um sæstreng með núverandi forsætisráðherra Bretlands. (Gripið fram í.) Nei, nei.

Hér er verið að vanda sig og ég vil segja það ærlega við hv. þingmenn að ég legg á það áherslu að (Forseti hringir.) hv. utanríkismálanefnd gefi sér tíma til að fara yfir þetta mál og öll þau vafaatriði sem uppi kunna (Forseti hringir.) að vera þannig að hv. þingmenn geti tekið afstöðu með upplýstum hætti síðar í vor.