149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins.

609. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna tækifæri til að ræða þessi mál á þessum grundvelli. Segja má að meginstefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum birtist í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við höfum sett okkur nokkuð metnaðarfull markmið og hófum þá vinnu strax í stjórnarsáttmálagerðinni að setja þessi mál nokkuð rækilega á dagskrá og höfum fylgt því vel eftir að mínu áliti.

Nú þegar spurt er um sameiginlegar auðlindir og eignir ríkisins sérstaklega myndi maður segja: Ja, hér er þá væntanlega fyrst og fremst um að ræða fiskstofnana í kringum landið, orkuauðlindir í hita og fallorku. Jú, ríkið á þar, fyrir utan bújarðir, alls kyns mannvirki. Það hefur einnig í sinni umsjón landsvæði, þjóðlendur, sem eru að mjög óverulegu leyti nýtt. Ef maður hoppar á milli þessara eignarflokka getum við kannski sagt varðandi auðlindir sjávar að þar hafi meginsjónarmiðið um langa hríð verið sjálfbærni. Vil ég meina að þar hafi náðst verulegur árangur í fyrsta lagi í fiskveiðistjórninni sjálfri að ná fram sjálfbærnimarkmiðunum.

Frá því að staðan í loftslagsmálum varð mönnum ljósari hafa útgerðaraðilar kappkostað mjög að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hafa náð verulegum árangri í þeim efnum. Í skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá því í desember 2017 kemur fram að sjávarútvegurinn hafi þegar árið 2016 minnkað losun sína á gróðurhúsalofttegundum um 43% frá árinu 1990. Þrátt fyrir það er ljóst að koma þurfa til nýir orkugjafar ef takast á að gera nýtingu fiskimiðanna fullkomlega kolefnishlutlausa. Á móti koma sjónarmið um hversu stórt kolefnisfótspor mismunandi próteinframleiðslu til manneldis hefur, en leiða má líkur að því að þar komi prótein úr sjó vel út í samanburði við ýmislegt annað.

En svo ég nálgist aðeins spurninguna ætla ég að benda á að nýting okkur úr vatnsföllum landsins er nú því sem næst kolefnishlutlaus. Það er einhver losun við nýtingu jarðhitans. Varðandi nýtingu jarða sem ríkið á og leigir oft bændum má nefna að við vinnum sérstaklega að kolefnishlutleysi sauðfjárræktar í nýlegum samningum. Þegar spurt er hvort til greina kæmi að skilyrða nýtinguna almennt við kolefnishlutleysi, eins og komið var inn á í máli fyrirspyrjanda, held ég að það gæti verið mjög vandasamt. Við höfum valið frekar þá leið að setja okkur almenn markmið fyrir samfélagið í heild, sem þýðir að við setjum ekki sérstök markmið fyrir hverja atvinnugrein eða hverja mannlega athöfn fyrir sig heldur frekar samfélagið í heild sinni. Við setjum stjórnvöldum áætlanir um það hvernig við náum þessum markmiðum og getur fólk þurft að leggja þar mismunandi mikið á sig miðað við stöðuna á hverju sviði.

Við ætlumst líka til þess, eins og augljóst er og hefur komið fram, að aðrir en ríkið leggi allt sitt af mörkum, og við köllum líka á heimilin og alla aðra sem geta áhrif hér til þess að vera þátttakendur í því að ná, ekki bara okkar alþjóðlegu skuldbindingum heldur þeim markmiðum sem við höfum sett okkur sem ganga lengra.

Ég vil koma því að undir lokin að mér finnst þetta engu að síður áhugaverð fyrirspurn. Þetta er áhugaverð nálgun á mikilvægt málefni og verð ég að láta við það sitja í dag að segja að ég held að við getum ekki gert mikið meira en við höfum einsett okkur í bili. Við eigum reyndar fullt í fangi með að ná þeim markmiðum sem við höfum þegar sett okkur þó að þetta gæti verið ágætisviðmið til hliðsjónar þegar við metum árangurinn hverju sinni, hvort við höfum í hendi okkar tækifæri til að gera meira vegna eigna sem við höfum í umsjá eða erum með yfirráð yfir.