149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins.

609. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég heyrði eitt sinn af háskóla í bandarískri stórborg sem sótti um að fá að stækka, gæti tekið einhver þúsund eða tugi þúsunda nemenda inn í skólann. Skólinn fékk neitun frá skipulagsyfirvöldum. Neitunin var á þeim forsendum að bílaumferð myndi aukast svo mikið. Skólinn mætti stækka ef tryggt yrði að bílaumferð myndi ekki aukast neitt, eða 0% aukning á bílaumferð þó að nemendum fjölgaði um 10–20 þúsund. Hver varð niðurstaðan? Jú, það var gert. Skólinn var skipulagður á þann hátt að bílaumferðin jókst ekki nokkurn skapaðan hlut við stækkunina.

Hví er ég að tiltaka þetta? Jú, því að það er akkúrat svona sem ég sé fyrir mér að við gætum mögulega gert þegar kemur að nýtingu auðlinda okkar. Við setjum einfaldlega þau skilyrði að nýtingin auki á engan hátt við kolefnisfótspor okkar, og nýtingin verði kolefnishlutlaus. Og ég minni á að í kolefnishlutleysi felst ekki eingöngu það að draga úr útblæstri, sem er náttúrlega allra best, heldur líka binding. Það eru tvær leiðir, og þess vegna er talað um kolefnishlutleysi í þessu.

Sjálfur vil ég ganga svo langt, þegar kemur að auðlindum þjóðarinnar, okkar allra, í eigu ríkisins, að huga að allri keðjunni, þ.e. þegar við tölum um orkuauðlindir verður líka að huga að því í hvað orkan er notuð, þ.e. kolefnisfótspor framleiðslunnar sjálfrar — og tekur við af rafmagninu. Þá er ég nú komin aðeins út fyrir efni þessarar fyrirspurnar þó að háfleyg sé.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og taka þátt í þessari umræðu og svara þessu og er þannig jákvæður í garð þess að (Forseti hringir.) við hugsum þetta á nýstárlega máta, því að eins og ég nefndi áðan, forseti, þurfum við að gera allt. Það er ekki bara eitthvað, við þurfum að gera allt þegar kemur að loftslagsmálum.