150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda.

709. mál
[13:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að taka heils hugar undir með hv. þingmanni, enda eru þetta spurningar sem ég spurði að þegar þetta mál kom fyrst inn á borð til mín. Þetta er auðvitað eitt af því sem ég lagði upp með fyrir áramót varðandi breytingar á lögreglunni, að styrkja eftirlitið, sjá hvar má gera betur, hvernig borgarar geta haft beinan aðgang að því eftirliti, fengið skýrari svör o.s.frv., bæði hvað ytra eftirlitið varðar og ekki síst innra eftirlitið. Sú vinna er í fullum gangi í ráðuneytinu og eru komnar ýmsar tillögur til að vinna með og ég mun halda áfram að vinna með þær og býst við að koma með eitthvað fram á næsta þingi um það.

Það skiptir máli varðandi ýmis atriði sem hv. þingmaður nefnir, sem eru mjög viðkvæmar upplýsingar, mjög persónulegar upplýsingar, að við erum líka að fylgjast með því hvernig önnur lönd ætla að framkvæma þetta. Í ESB-ríkjunum tekur skyldan um skrá um bankareikninga gildi 10. september og þá munum við sjá hvernig fólk hefur skrána, hver ber ábyrgð á henni, hverjir hafa fullan aðgang að henni og síðan hver hefur með höndum eftirlitið sem hefur ekki sama aðgang að skránni, því að eftirlitið má auðvitað ekki vera á sömu hendi. Þetta er allt til skoðunar og verður að skoða gaumgæfilega en er kannski ekki orðið fullmótað. En við erum að innleiða þetta svo að það sé þá klárt og svo munum við finna sem bestar leiðir og ég mun útfæra nánar í reglugerð hvernig eftirlitinu verður best háttað. Ég legg ríka áherslu á að það verði með sómasamlegum hætti og tek undir með hv. þingmanni að þarna geta verið mjög viðkvæmar upplýsingar.