154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa verið gerðar. Auðvitað varðar þetta þingið allt og vinnubrögð okkar hér þó að meiri hluti atvinnuveganefndar beri hitann og þungann af þessum ólögum sem voru lögð hér fyrir til samþykktar og fóru í gegn fyrir tilstuðlan meiri hlutans og með atkvæðum Miðflokksins, ef ég man rétt. Ég mun að sjálfsögðu taka þetta upp í atvinnuveganefnd sem hlýtur að fara að funda. En mig langar bara að benda á sem dæmi í hvaða flýti þetta var allt unnið — og það þurfti ekki. Hér hafa mál farið í gegn í krafti þingmeirihluta en það hefur verið þingleg meðferð sem ekki hefur endilega verið gagnrýniverð. Það er hægt að gagnrýna þá meðferð núna. Ég gerði athugasemd við ákveðna hluti í nefndaráliti sem ég hafði ekki séð áður og það var tekið til greina og ég hélt þar með að því yrði breytt. Svo var ekki. Ég áttaði mig ekki á því að ég ætti að hringja í lögfræðing Kaupfélags Skagfirðinga. Ég hefði betur vitað það.