149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

sifjadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

718. mál
[16:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi fyrri lið spurningarinnar, hvort ráðherra muni bregðast við, vil ég taka fram að öll nýju sýslumannsembætti landsins hafa frá árinu 2015 glímt við ákveðna veikleika í rekstri sem leitt hafa til hallareksturs. Við því var m.a. brugðist í árslok 2016 þegar verulegur hluti hallans var felldur niður. Þetta hefur þó ekki dugað til og hefur embættunum ekki tekist að reka starfsemina innan fjárheimilda.

Dómsmálaráðherra hefur af þessum sökum m.a. unnið með sýslumönnum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu svo skapa megi ásættanlegan rekstrargrundvöll miðað við óbreytta starfsemi án þess að þjónustan líði fyrir. Þá hefur ráðuneytið jafnframt fundað, bæði með fjölskyldusviði embættisins og fagráði um sifjamál, með það að markmiði að leita leiða til að bæta stöðu embættisins og tryggja að erindi fái faglega umfjöllun innan ásættanlegra tímamarka. Þeirri greiningarvinnu er ekki lokið en vonir standa til að samvinnan leiði til úrbóta sem muni skila tilsettum árangri.

Vegna þeirrar stöðu sem sýslumannsembættin eru almennt í hvað varðar fjárveitingar og rekstur hefur dómsmálaráðherra unnið í stefnumótun fyrir sýslumannsembættin. Á grundvelli þess kynnti þáverandi ráðherra haustið 2018 fyrir sýslumönnum og ríkisstjórn framtíðarsýn í málefnum sýslumanna.

Það er mat ráðherra og ráðuneytisins að endurskoðun á skipulagi og verklagi sýslumannsembættanna sé til þess fallin að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í rekstri þannig að skapa megi embættunum fullnægjandi rekstrargrundvöll til að sinna lögmæltum verkefnum innan eðlilegra tímamarka og um leið bæta þjónustu og afköst embættanna.

Á næstu mánuðum stendur til að innleiða fyrsta áfanga rafrænna þinglýsinga hjá sýslumannsembættunum. Helsta breytingin á framkvæmd þinglýsinga er sú að rafræn þinglýsing verður að jafnaði sjálfvirk og við þær aðstæður koma starfsmenn sýslumanna ekki að eiginlegum þinglýsingum nema þegar skilyrðum þinglýsingar er ekki fullnægt.

Þar sem rafræn þinglýsing verður fyrst um sinn valkvæð og fyrri framkvæmd leggst þannig ekki af er ekki að fullu ljóst hvenær eða hve mikill ávinningur fæst af rafrænum þinglýsingum. Þegar hin nýja framkvæmd hefur verið innleidd að fullu má ætla að áhrifin leiði til kostnaðarlækkunar fyrir sýslumannsembættin og að það kunni að skapa tækifæri fyrir sýslumenn til að gera breytingar á störfum og verksviði starfsmanna.

Rafræn þjónusta í þinglýsingum á sér fyrirmyndir, til að mynda heimabankaþjónustu, rafræn skil skattframtala og rafræna tollafgreiðslu. Þá ber jafnframt að geta þess að ráðuneytið hefur hafið samstarf við verkefnastofuna Stafrænt Ísland með það að markmiði að auka vægi rafrænnar stjórnsýslu hjá sýslumönnum og bæta þannig enn frekar stöðu starfsfólks embættanna svo það geti betur tekist á við fyrirliggjandi verkefni.

Það skiptir líka máli að vekja athygli á því að skipulag sýslumannsembættanna er í höndum sýslumanna sjálfra, þar með talin ráðstöfun stöðugilda innan embættanna. Sú ráðstöfun hlýtur að taka mið af verkefnum og álagi með það að markmiði að þjónustan verði eins og best verður á kosið og (Forseti hringir.) ráðstöfun fyrirliggjandi fjárheimilda málefnaleg.