Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Eins og kemur fram í þessari fjármálaáætlun þá fer forsætisráðuneytið með yfirstjórn jafnréttismála í samráði við önnur ráðuneyti um verkefni á sviði jafnréttis og mannréttindamála. Þau lög sem nú falla undir jafnréttismál eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá falla lög um kynrænt sjálfræði undir stjórnmálaefnið jafnréttismál ásamt málefnum hinsegin fólks.

Í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Áskoranir á sviði jafnréttismála eru margþættar og tengjast m.a. viðvarandi launamun kvenna og karla, kynskiptum vinnumarkaði, ójafnri valdastöðu kynjanna, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni og réttindum hinsegin fólks.“

Þar með er það upptalið. Lög nr. 85/2018, sem í dag eru lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, hétu áður, þar til bara fyrir nokkrum mánuðum síðan, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Á síðasta ári var bætt mörgum mismununarbreytum inn í lögin og núna kveða þau á um jafna meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu. Ég fletti upp orðinu þjóðerni, með því að gera „control find“, í fjármálaáætlun og upp komu tvö tilvik, annað í neðanmálsgrein en hitt í upptalningu á lögunum.

Ég ætla að fá að spyrja hæstv. ráðherra. Nú sendi ég fyrirspurn á fyrra þingi um það hversu mörg mál hefðu komið til kærunefndar jafnréttismála á grundvelli þessara laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Svarið var: Ekkert. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er: Telur hæstv. ráðherra að fordómar og mismunun (Forseti hringir.) á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna sé ekki vandamál hér á landi? Eða hver er annars (Forseti hringir.) ástæðan fyrir því að ekki virðist gert ráð fyrir neinum aðgerðum í þessum efnum í fjármálaáætlun til fimm ára?