Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr mikilvægi Landhelgisgæslunnar, síður en svo. Ég hef átt áralangt persónulegt samstarf sjálfur í mínum fyrri störfum fyrir björgunarsveitirnar við þessa stofnun og þá starfsmenn sem þar eru og margir af þeim eru ágætir kunningjar og vinir. Þetta er gríðarlega mikilvæg stofnun og ég sagði það hér áðan að á minni vakt í dómsmálaráðuneytinu verður ekki slegið af kröfum um viðbragðs- og björgunargetu í landinu. Það er alveg á hreinu. Það þarf enginn að efast um það. Mér ber aftur á móti að leita allra leiða til að hagræða í rekstri, eins mikið og hægt er, og eins og ég sagði áðan þá erum við að horfa til ákveðinna þátta í því. Við erum að horfa til reynslu nágrannaþjóða okkar sem gera miklar kröfur á þessum vettvangi ekki síður en við. Þessir aðilar sem voru fengnir til að fara inn í gæsluna eru að vinna þar með yfirmönnum í þessum málum. Þeir eru í nánu samstarfi við yfirmenn hjá gæslunni varðandi alla upplýsingaöflun og úttektir og eru að leita fanga svo víðar. Að sjálfsögðu verður síðan sest yfir þessar niðurstöður með yfirmönnum og fólki hjá Landhelgisgæslunni og öðrum til að kynna og ákveða hvaða skref verða stigin í framhaldi með þessar hagræðingar í huga. Það er glöggt gests augað og ágætt að fá oft utanaðkomandi aðila til að rýna hlutina með sér að þessu leyti.

Ef og hefði verið meira fjármagn, já, já, ég held aðvélin hafi komið hingað árið 2009. Ætli við getum ekki fullyrt að allan þann tíma hefur rekstur hennar verið vanfjármagnaður. Það var ráðist í kaup á mjög dýrri, vél sem er mjög dýr í rekstri í samanburði við aðrar vélar og nútímatækni hefur auðvitað breyst í grundvallaratriðum, fjarskiptatækni og annað, sem gerir okkur kleift að gera þetta með hagkvæmari hætti. Landhelgisgæslan sinnir auðvitað ákveðnum þætti í sjúkrafluginu, sérstaklega er það nú með þyrlum en ekki flugvélum og sjúkraflugið er skipað með öðrum hætti í landinu almennt. (Forseti hringir.) Það er á vettvangi heilbrigðisráðuneytisins en ekki okkar.