Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:50]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og áhuga hans og vilja til að bæta úr brýnum vanda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það er alveg ljóst í mínum huga að til að bregðast við þurfum við að virkja bæði hið opinbera kerfi sem og einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Eins og ég nefndi hér áðan var heilsugæslan í Reykjanesbæ byggð fyrir um 50 árum til að sinna um 7.000 íbúum. Nú eru þeir 30.000 og heilsugæslan er enn í sama húsnæði. Núverandi húsnæði er 700 m² og eru þrengslin svo mikil að ekki er hægt að fjölga starfsfólki. Á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að byggja nýja heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík sem á að sinna 15.000 manns. Nánar tiltekið var ákvörðunin tekin á fyrri hluta árs 2021 og átti að taka heilsugæsluna í notkun árið 2024. Til að gera langa sögu stutta þá er ekki einu sinni búið að bjóða út verkið og því ljóst að engin heilsugæslustöð mun opna í Innri-Njarðvík á næsta ári. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver er staðan í byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík og hvenær er gert ráð fyrir að hún geti tekið til starfa?

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa stigið það skref á síðasta ári að bjóða út heilsugæslu í einkarekstri. Eru áætlanir um að hún muni hefja starfsemi seinni part sumars? Það mun hafa mikla þýðingu fyrir íbúa Suðurnesja og sömuleiðis létta á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, enda eru á sjötta þúsund manns skráð í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sem eiga lögheimili á Suðurnesjum.

Ég vil hér í lokin spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að nýta enn frekar einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.