139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um umhverfismál.

Nefndin hefur fjallað um málið en markmið þessarar tilskipunar er að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar í allri Evrópu og þá einna helst í þágu umhverfismála. Ákvæði hennar ná eingöngu til landupplýsinga á rafrænu formi og fjalla einkum um miðlun, aðgengi og samræmingu þeirra. Viðkomandi gögn falla undir verksvið nokkurra ráðuneyta en einnig til sveitarfélaga vegna skipulagsgagna.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að af hálfu EFTA-ríkjanna var gerð krafa um þá aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn að tryggt yrði að EES/EFTA-ríkin fengju jafnlangan tíma og ESB-ríki fá til að innleiða þær skyldur sem svokölluð INSPIRE-gerð leggur þeim á herðar. Aðlögunartexti þessa efnis kemur fram í 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010.

Að mati umhverfisráðuneytisins hefur innleiðing tilskipunarinnar í för með sér verulegan samfélags- og fjárhagslegan ávinning á komandi árum, svo sem á sviðum skipulagsmála, náttúruverndar, ferðaþjónustu og vegna viðbragða við náttúruhamförum. Þá telur ráðuneytið að hún ýti á nauðsynlegar úrbætur varðandi skipulag og umsýslu landupplýsinga hér á landi sem telst nú dreifð og ekki nógu aðgengileg.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra til nýrra heildarlaga um grunngerð landupplýsinga, þ.e. 121. mál á þskj. 130, að hluta til um það efni. Það frumvarp er nú til meðferðar í hv. umhverfisnefnd.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að æskilegt væri að veita jafnhliða heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124/2010, frá 10. nóvember sl., um breytingu á XX. viðauka, þ.e. sama viðauka, við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1205/2008, um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2/2007, að því er varðar lýsigögn og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 442/2009 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2/2007 að því er varðar vöktun og skýrslugjöf. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. maí 2011.

Nefndin gerir því breytingartillögu þar að lútandi og leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingartillögu og að tillögugreinin orðist þá svo, með leyfi forseta, og hefst nú lesturinn:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010, frá 30. apríl 2010, og nr. 124/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB um að koma á grunngerð fyrir landupplýsingar í Evrópubandalaginu (INSPIRE), reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1205/2008 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar lýsigögn og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/442/EB um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar vöktun og skýrslugjöf.“

Fyrirsögn tillögunnar orðist þá þannig, með leyfi forseta:

„Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010 og nr. 124/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.“

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi á fundi utanríkismálanefndar við afgreiðslu þessa máls.

Undir þetta nefndarálit og breytingartillögurnar skrifa Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.