154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um afstöðu mína hvað það varðar að æskilegt væri að boðað yrði til kosninga. Þessi ríkisstjórn, sem með minnstu mögulegu breytingum endurnýjaði heit sín í síðustu viku, er auðvitað því marki brennd, eins og við blasir, að traust til hennar er lítið. Og þegar, eins og ég kom inn á í störfum þingsins hér við upphaf þingfundar, þrjú helstu áhersluatriði ríkisstjórnarinnar eru öll í uppnámi, hvort sem horft er til frekari orkuöflunar, málefna er varða útlendingamál eða fjármála hins opinbera og efnahagsmálanna í heild sinni, þá er mér til efs að nokkur ríkisstjórn hafi verið orðin haltari svo fljótt eftir fyrsta ríkisráðsfund og sú sem nú er við völd.

Að því atriði sem hv. þingmaður spurði um í tengslum við rannsóknarnefnd. Ég held að það fari í sjálfu sér ekki frá þinginu að taka þá ákvörðun jafnvel þó að sala á eftirstæðum hlut í Íslandsbanka væri kláruð. Það var auðvitað augljóslega ekki vilji til að fara þá leið á sínum tíma þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra kallaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar. Rétt eins og með aðrar úttektir — Búnaðarbankinn er dæmi um slíkt mál sem var rannsakað töluvert löngu eftir að allt var um garð gengið. Ég man ekki hve mörg ár liðu þar á milli. Ég held að það verkefni sé í sjálfu sér ekki að hlaupa frá neinum. En ég held líka að obbinn af þeim kjarnaatriðum sem skipta máli sé kominn fram þannig að ég hef efasemdir um að það yrði megináhersluatriði. Ég ítreka bara að ég held að það hlaupi ekki frá þinginu, verði hér meiri hluti til að ýta þeirri ákvörðun af stað síðar, jafnvel þó að það yrði klárað að selja eftirstandandi hlut.