150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[15:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel afskaplega mikilvægt að við tökum þátt í því alþjóðasamstarfi á sviði loftslagsbreytinga sem er í gangi og veit að við hv. þingmaður erum sammála um það. Það þýðir m.a. að þegar sú ákvörðun var tekin að fara með Noregi og Evrópusambandinu í þá vegferð að draga sameiginlega úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn kallaði það á að við myndum innleiða sambærilegt eða sama kerfi og er verið að gera í ríkjum Evrópusambandsins og Noregi. Það mál sem hér liggur fyrir á 41 blaðsíðu, ef ég man rétt það sem hv. þingmaður vitnaði til, er til að innleiða þá sameiginlegu vegferð okkar. Þess vegna koma þau orð sem hinn ágæti hv. þingmaður nefndi fyrir eins oft og raun ber vitni.

Það er alveg rétt að loftslagslöggjöfin á Íslandi tekur að mjög miklu leyti, ekki veit ég prósentutöluna, mið af Evrópulöggjöf og því samkomulagi sem við höfum nú þegar átt við Evrópusambandið og Noreg á fyrri stigum. Það sem við erum hér með að leggja til að verði innleitt í lagabálkinn tekur akkúrat á því sem snýr að þessum málum, þ.e. að takast á við Parísarsamkomulagið í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir sem ég tel farsælt. Ég tel að það sé rétta leiðin til að ná sem mestum árangri og halda uppi sem mestum metnaði í þessum málum.