154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað skila fjármálafyrirtækin hagnaði í góðu árferði og stundum miklum hagnaði. Það er þá stundum notað sem rök fyrir því að ríkið eigi ekki að fara af þeim markaði heldur nota það sem kemur inn í arð til uppbyggingar frekar en að selja bankann. Það eitt og sér gæti þá allt eins verið röksemd fyrir því að ríkið myndi gera sig gildandi á öðrum mörkuðum líka, þ.e. ef það eitt og sér er einhver röksemd. Ég held að þetta sem hv. þingmaður nefnir verði auðvitað bara ofur einfaldlega leyst með því að selja. Ég meina, það sem gerist í bankanum og bankakerfinu er þá bara eitthvað sem gerist á fjármálamarkaði og í hefðbundnum rekstri fyrirtækja.

Mér finnst hagnaðartala bankans frá einum tíma til annars ekkert endilega vera einhver sérstök rök fyrir því hvort eigi að selja eða ekki eða hvernig það eigi að vera. Mér finnst það bara vera almenn grundvallarregla að ríkið eigi ekki að vera á samkeppnismarkaði þar sem ríkið þarf ekki að vera á samkeppnismarkaði og mér finnst það gilda um fjármálakerfið. Ég minni aftur á það sem ég nefndi í ræðu minni að auðvitað var það ekki þannig að íslenska ríkið gerðist umsvifamikið á fjármálamarkaði af því að einhver sérstök eftirspurn hefði verið eftir því heldur var það bara úrvinnslan úr eignum eftir hrun, þrotabúum og öllu því sem við þekkjum, sem varpaði þeirri atburðarás fram. Þetta er kannski það sem ég myndi vilja segja, ef ég skildi pælingu hv. þingmanns rétt.