144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að það eru vonbrigði að hin stóru frumvörpin sem boðuð voru í þingmálaskrá og taka til húsnæðismarkaðarins séu ekki komin fram og að þau séu enn í kostnaðarmati. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún líkur á því miðað við hvert við erum komin í dagatalinu að þessi þingmál komi fram á yfirstandandi þingi? Ef þau koma ekki fram, mun það hafa áhrif á stöðu þeirra mála sem við ræðum hér í dag, í ljósi þess að í umræðunni hefur yfirleitt verið vísað til þessara fjögurra mála sem einnar kippu, ef svo má segja? Getum við afgreitt þessi tvö mál án þess að hafa séð hin frumvörpin og án þess að vita hvað þar stendur? Erum við þá að taka út hluta af málinu án þess að hafa heildarmyndina? Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því.