149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[15:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Varðandi orðfærið og tækifærin og möguleikana verð ég að leyfa mér að vera ósammála um það. Orð skipta máli. Orðum fylgir ábyrgð. Orðfærið skiptir máli og hefur áhrif. Þegar við tölum um tækifæri og möguleika í loftslagsbreytingum erum við einfaldlega að smætta þann gríðarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir, sem er ógn við jarðarbúa alla. Við eigum að vanda okkur þegar við tölum um breytt umhverfi sem veldur því að siglingaleiðir opnist o.s.frv., og ekki að tala um það sem möguleika og tækifæri. Það eru einfaldlega ekki rétt skilaboð þegar við erum að takast á hendur þetta risastóra verkefni, sem er að sporna gegn loftslagsbreytingum á alþjóðavísu.

Varðandi þá fjármuni sem fara í þróunarsamvinnuna og þann hluta sem fer í móttöku hælisleitenda og til fólks á flótta sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd vil ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ef þeir peningar fara beint eða óbeint af fjármunum utanríkisráðuneytisins hlýtur utanríkisráðherra líka að þurfa að standa fyrir þeirri stefnu sem hér hefur verið boðuð og hefur verið gagnrýnd af mörgum, sem snýst um að vísa fólki í afar viðkvæmri stöðu, börnum, konum, fjölskyldum, af landi brott til annarra landa þar sem öryggi þeirra er ekki 100% tryggt. Þá verður utanríkisráðherra hreinlega að standa fyrir þeirri stefnu eða stýra þeim fjármunum til annarra verka. Ef stefnan er sú að láta þá renna áfram í móttöku hælisleitenda og flóttafólks hér á landi, af þróunarsamvinnupeningunum, verður hæstv. utanríkisráðherra væntanlega að bera ábyrgð á þeim fjármunum og þeirri stefnumörkun sem um þá gildir.