154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Hann svaraði því ekki hvort hann ætlaði að hækka öryrkja og eldri borgara um sömu upphæð og samið var um við launþega en hann er stoltur af heilbrigðiskerfinu. Hann er stoltur af því að ef veikur maður ætlar að reyna að komast til læknis þá getur hann þurft að bíða í tvo til þrjá mánuði. Viðkomandi þarf þá að bíða í símanum í tvo til þrjá tíma í von um að hann geti fengið tíma eftir einn og hálfan eða tvo mánuði. Hann er stoltur af því að hann er búinn að semja en er hann jafn stoltur af því að ekki er enn búið að semja við sjúkraþjálfara? Hvernig stendur á því að menn leyfa sér að semja ekki við sjúkraþjálfara svo árum skiptir og hrekja fólk úr sjúkraþjálfun? Á sama tíma segjast menn ætla að endurhæfa öryrkja og reyna að koma þeim til vinnu. Nei, þá ætla menn bara að framleiða öryrkja á sama tíma. Menn hljóta að vera óhemjustoltir af þessu.