140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á það sem ég ræddi í andsvörum við hv. þm. Jón Bjarnason sem snýr að því að oft hefur verið í umræðunni að stofna eitt svokallað atvinnuvegaráðuneyti og hefur sitt sýnst hverjum varðandi það. Síðan kemur sá nýi vinkill á málið að setja bankamálin undir það til viðbótar. Ég hef af því verulegar áhyggjur að sá hæstv. ráðherra sem sinnir þeim málaflokki muni ekki geta haft þá yfirsýn sem nauðsynleg er. Það hefur ekkert með þann einstakling að gera sem mun sinna því. Mér hefur fundist sú breyting sem gerð var á velferðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu hafa sýnt að það er mjög erfitt fyrir einn hæstv. ráðherra að sinna öllum þeim málaflokkum sem þar eru og hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast á þeim vettvangi.

Ég held að það sem þurft hefði að gera og það sem fer eiginlega mest í taugarnar á mér sé allur kostnaðurinn sem fellur til vegna húsnæðismálanna. Það er búið að henda stórfé í þau, það er nýbúið að fara í breytingar upp á 250 millj. kr. og nú stefnir í að gerðar verði breytingar á þessu kjörtímabili fyrir um 250 millj. kr. Það eru 500 millj. kr. á þeim tímum sem nú eru. Það er eins og það vanti ekki peninga í ríkissjóð. Mér finnst það líka mjög dapurlegt að þessu verður jafnvel breytt strax eftir næstu kosningar, eftir eitt ár, en breytingarnar eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir 1. september. Ég hefði talið betra ef menn hefðu unnið þetta á skynsamlegri hátt, til dæmis ef menn gætu náð samkomulagi um að hafa Stjórnarráðið á einhverjum ákveðnum stað í ákveðnum byggingum þannig að við þyrftum ekki alltaf að vera að henda peningum og stórum upphæðum í það. Menn mundu þróa umræðuna og kanna kosti þess og galla að hafa hugsanlega aðstoðarráðherra eða skipta ráðuneytunum upp en stilla því þó þannig upp í ráðuneytunum sjálfum og í húsnæðinu að hægt væri að gera hvort tveggja ef ekki næst samkomulag um að gera það þannig. Síðan mundum við ræða um hvort þetta sé skynsamlegt því að það er bagalegt að fara í allar þessar breytingar á húsnæði þegar því verður kannski breytt aftur eftir örstutta stund.

Svo er alveg einsýnt að mínu viti að það þarf að breyta þessu í þá veru, og ég sagði líka það við breytingarnar 2010–2011, að við eigum að hætta að ráða starfsfólk inn í sérhvert ráðuneyti. Það á að ráða starfsfólk í Stjórnarráðið, þ.e. maður er ráðinn í stjórnsýsluna í heild, hann er ekki merktur einhverju einu ráðuneyti því að það gefur augaleið að þegar svona mál koma upp, þegar fækka á ráðuneytum og sameina á ráðuneyti kemur upp mikill ótti og óvissa í starfsfólkið um hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir viðkomandi starfsmann. Það er bara mannlegt, alveg sama hvort það er í Stjórnarráðinu eða í einhverjum öðrum fyrirtækjum.

Ef ráðið væri inn í Stjórnarráðið í heild sinni þyrfti að vera hægt að færa til starfsfólkið innan Stjórnarráðsins, það kæmi kannski mikið álag á eitt ráðuneyti og þá væri hægt að fá starfsfólk úr öðru ráðuneyti þar sem ekki væri jafnmikið um að vera og minna af verkefnum á þeim tíma. Með því væri hægt að létta álaginu af því starfsfólki sem væri undir miklu álagi. Ég hef til að mynda séð starfsfólkið í fjármálaráðuneytinu við gerð fjárlaga á haustin, þetta fólk er boðað á fundi á öllum tímum sólarhringsins, liggur við, hvort heldur er á laugardögum eða sunnudögum. Ég held að það sé verðugt umhugsunarefni að ráða inn í Stjórnarráðið með þessum hætti vegna þess að þá mundi komast á miklu meiri ró þegar svona breytingar standa fyrir dyrum, þá væri stjórnsýslan mönnuð alveg eins og hún er núna þótt menn fengju annan ráðherra, stjórnsýslan væri þá miklu stöðugri. Þá þarf líka að gera þá kröfu og rökræða það að þegar nýir ráðherrar koma inn komi þeir með ákveðinn fjölda aðstoðarmanna og taki með sér starfsmenn þegar þeir fara út, hvort sem þeir eru tveir eða þrír. Eins og þetta er í dag er komið inn með hóp fólks sem er kallað alls konar nöfnum; upplýsingafulltrúar, blaðafulltrúar, sérfræðingar og hvað þetta heitir allt saman, og þeir sitja oft og tíðum eftir í ráðuneytunum þegar nýr ráðherra tekur við. (Forseti hringir.) Það hlutir sem við ættum frekar að ræða en þær hugmyndir sem hér eru til umræðu.