140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Ég var þeirrar skoðunar og er enn að það hefði þurft að fara fram stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Að þeirri stjórnsýsluúttekt lokinni hefðu menn átt að velta fyrir sér hvort skynsamlegt væri að sameina þessar stofnanir með einum eða öðrum hætti. Það er jafnframt mín skoðun að taka hefði þurft ákveðna neytendavernd innan Fjármálaeftirlitsins þaðan út og færa á annan stað, t.d. til Neytendastofu og styrkja hana enn frekar í því sem hún gerir.

Ég tek undir það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi og ítreka að við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur hvaða stöðu efnahagsmálin eigi að hafa og hvar þau eigi að vera vistuð. Eins og málin standa nú erum við með efnahags- og viðskiptaráðuneyti, hvar þau eru vistuð, við höfum fjármálaráðuneyti og síðan er sérstakur efnahagsráðgjafi forsætisráðherra í forsætisráðuneytinu. En forsætisráðuneytið hefur ekkert með efnahagsmál að gera eins og staðan er innan ríkisstjórnarinnar nú. Ég tel að við eigum að horfa til framtíðar varðandi það hvernig við viljum skipa efnahagsmálum, að þau séu ákveðinn fastur punktur og fastur þáttur innan ríkisstjórnarinnar hverju sinni og þá verði efnahagsþátturinn styrktur í því ráðuneyti þar sem hann verður vistaður. Mér finnst persónulega að færa eigi þann þátt í forsætisráðuneytið og þar eigi að vera styrk stjórn efnahagsmála. Ég hefði talið það heppilegra. Ef menn kjósa að hafa þau annars staðar verða menn líka að vera tilbúnir að ræða það og hvernig við ætlum að skipa þessum málum til framtíðar. Hringl af þessu tagi getur ekki verið til góðs og hlýtur að koma niður á gæðum (Forseti hringir.) frekar en hitt.