149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú nota tækifærið og þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem var farið yfir margt sem þarna er á ferðinni. Ég vil taka undir lokaorð hv. þingmanns. Ég held að það hafi aldrei verið mikilvægara en núna að við ræðum utanríkismál.

Einhver kynni að segja: Bíddu, eigum við þá ekki að ræða þau hér í þessum sal? Er það ekki nóg? Nei, það er ekki nóg. Ég held að á engan sé hallað þótt ég segi að hv. þingmaður sé flinkasti samfélagsmiðlaþingmaður lýðveldisins og þótt víðar væri leitað. Það skiptir máli að við nýtum slíkt til að koma upplýsingum áleiðis, vekja áhuga fólks á þeim málum.

Við erum sömuleiðis í ráðuneytinu að stíga skref hvað það varðar; þetta er leiðin til að koma upplýsingum áleiðis.

Hv. þingmaður fór yfir marga þætti en grunntónninn fannst mér vera sá að við Íslendingar eigum svo mikið undir alþjóðasamskiptum. Reyndar skal ég alveg viðurkenna að ég er frekar upptekinn af að tala um efnahagslega þáttinn. Hann er bara lítill hluti af þessu. Eins og Evrópska efnahagssvæðið: Þá erum við auðvitað að tala um vísindasamstarf og ýmislegt annað.

Svo er það líka þannig að hugmyndir og straumar og stefnur sem er mikilvægt að fá, fáum við í gegnum alþjóðasamstarf. Öll viljum við halda utan um fullveldi okkar, fjöreggið, og ég vil trúa því að öll viljum við líka halda utan um þjóðríkið. Hvorugt er íslensk uppfinning. Þetta er nokkuð sem við fengum annars staðar frá. Þó svo að við getum alveg eins sagt að eitthvað sé íslenskt, að í það minnsta höfum við haft áhrif á það, er það nú svo að ef við viljum hafa hér lífskjör eins og við viljum sjá þau gerast best í heiminum þurfum við að fylgjast með hvað gerist annars staðar. Við þurfum að hafa áhrif á okkar hagsmuni og við gerum það ekki öðruvísi en að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi.

Ég þakka hv. þingmanni sem formanni nefndar og hv. nefndinni. Ég er ekki sammála öllum nefndarmönnum alltaf. (Forseti hringir.) En þetta er mjög öflug utanríkismálanefnd undir forystu hv. þingmanns. Það er gríðarlega mikilvægt.