149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil hér í síðari ræðu minni víkja að kaflanum um mannréttindamál og setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega að kaflanum sem ber heitið „Ísland lætur að sér kveða“ á blaðsíðu 24–27.

Ég fagna því frumkvæði sem Ísland hefur sýnt á vettvangi mannréttindaráðsins, sérstaklega vegna mannréttindabrota í Sádi-Arabíu. Ísland fór þar fyrir sameiginlegri yfirlýsingu 36 ríkja. Þetta er í fyrsta sinn sem Sádi-Arabía er beitt slíkum þrýstingi í ráðinu og það er mjög merkilegt. Ég segi enn og aftur að ég tel að við höfum staðið okkur mjög vel í þessu máli og fagna því og vil þakka utanríkisráðherra fyrir skelegga framgöngu í þessu máli.

Þarna bar einnig á góma og var enn fremur fordæmt morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem vakti víða óhug um heim. Mjög nauðsynlegt að fordæma það á þessum vettvangi.

Hér höfum við dæmi um það hvernig ríki geta, með samstilltu átaki, brugðist við alvarlegum brotum ríkja á mannréttindum borgara sinna. Framganga Íslands sýnir að stærð ríkja skiptir ekki máli varðandi áhrif í mannréttindaráðinu, eins og hæstv. ráðherra hefur nefnt hér. Ég tek heils hugar undir það og fagna þeirri djörfung sem Ísland hefur sýnt fyrir þessari nefnd.

Í raun má segja að þarna hafi verið brotið blað í sögu mannréttindaráðsins þegar eitt af þessum stóru, voldugu ríkjum var gagnrýnt fyrir gróf mannréttindabrot heima fyrir. Að sjálfsögðu vonar maður að þetta leiði til þess að ríki sem sitja í mannréttindaráðinu veigri sér ekki við að sameinast um að gagnrýna önnur ríki, önnur voldug ríki.

Að sama skapi verð ég að koma því á framfæri að ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki kynnt sér nægilega vel stöðu mála á Filippseyjum þegar hann gerði stöðu mannréttinda þar í landi að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni fyrir mannréttindaráðinu á síðasta ári og gagnrýndi stjórnvöld harðlega. Ísland tók þar með ákveðna forustu hvað þetta varðar. Kallaði ráðherra eftir frekari viðbrögðum ráðsins ef stjórnvöld á Filippseyjum sneru ekki af þessari braut. Stjórnvöld á Filippseyjum brugðust ósátt við gagnrýni íslenskra stjórnvalda á mannréttindamál þar í landi og bauð utanríkisráðherra Filippseyja utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, í heimsókn til að meta stöðuna milliliðalaust.

En um hvað snýst málið, herra forseti, og af hvaða braut hvatti utanríkisráðherra Íslands stjórnvöld á Filippseyjum til að snúa? Málið snýst um stríð gegn eiturlyfjum þar í landi og hafa stjórnvöld verið sökuð um dráp á borgurum án dóms og laga. Ekki er þó allt sem sýnist í þessum efnum og miklu af falsfréttum hefur verið dreift sem eru fjármagnaðar af eiturlyfjahringjum á Filippseyjum og settar fram í þeim tilgangi að sverta stjórnvöld.

Fjölmargir lögreglumenn hafa verið hafa verið drepnir í þessum aðgerðum á Filippseyjum, en þær hafa hins vegar skilað verulegum árangri þar í landi og hófst þessi aðgerð fyrir þremur árum. Glæpatíðni á Filippseyjum var há og má segja að landið hafi verið þjakað af eiturlyfjagengjum. Árangurinn af aðgerðum stjórnvalda er mikill, eins og áður segir, og í helstu borgum landsins hefur glæpatíðni minnkað á bilinu 40–70%. Nú er svo komið að hinn almenni borgari getur gengið óhultur út að kvöldlagi á Filippseyjum, sem áður var hættulegt — og ógerlegt í raun og veru. Forsetinn á Filippseyjum nýtur mikils stuðnings meðal landsmanna og almenningur þar í landi stendur fyllilega við bakið á forsetanum í þessu stríði.

Ég tel að í þessu máli, herra forseti, hefðum við átt að stíga varlega til jarðar í mannréttindaráðinu. Eins og ég segi fagna ég að sjálfsögðu þeirri djörfung sem við höfum sýnt í þessu ráði og ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur haft þessa framgöngu af góðum hug. En þarna held ég, eins og ég segi enn og aftur, að við hefðum átt að stíga varlega til jarðar vegna þess að málið er ekki alveg eins einfalt og það lítur út fyrir að vera.