154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[19:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður kom víða við og mig langar að grípa aðeins niður í það sem hv. þingmaður byrjaði á að ræða, stöðugleika og verðbólgu. Nú er það alveg ljóst að verðbólgan hefur farið niður á síðustu mánuðum. (Gripið fram í.) — Hún hefur víst farið niður á síðustu mánuðum. Hún var komin upp í 10% og er innan við 7% núna. Spár gera ráð fyrir því að hún haldi áfram að lækka á þessu ári og áfram inn á næsta ár og muni síðan að lokum ná viðmiði Seðlabankans um 2,5% verðbólgu. Hún hefur hins vegar verið þrálátari heldur en við hefðum kosið. Ég tel að þeir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem var lokið við fyrr í vetur, samningar til næstu fjögurra ára, muni skapa stöðugleika á vinnumarkaði, sérstaklega ef með svipuðum hætti verður samið á hinum opinbera vinnumarkaði. Þar er innlegg ríkisstjórnarinnar gríðarlega mikilvægt skref í að loka þessum samningum, sá kjarapakki sem ríkisstjórnin lagði fram og ég kom inn á í ræðu minni áðan.

Hv. þingmaður spyr mig um frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Ég hef rætt þetta oft áður hér í þingsal. Það var settur á starfshópur sem komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að geyma það að koma fram með þetta — ég hef aldrei sagt að það muni ekki gerast — safna gögnum og láta reyna á að veita frekari upplýsingar í gegnum island.is og með því að setja starfsfólk í að sinna slíkri upplýsingagjöf. Ég held að við eigum að láta reyna á það áður en komið verður fram með frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks.