154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[20:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni sína ræðu. Ég held að við séum efnislega ósammála um ýmislegt sem kom fram hjá honum en við þurfum ekki að elta ólar við það í þessari umræðu af því að vantrauststillaga á ríkisstjórn snýst ekki endilega um málefnin heldur kannski meira um stjórntæki hennar, hvort hún ráði við það verkefni að stýra landinu.

Þar er einmitt ágætt dæmi, málefni fólks á flótta sem mér heyrist við hv. þingmaður einmitt vera nokkuð ósammála um stöðuna á. En togstreitan og stefnuleysið sem birtist í störfum ríkisstjórnarinnar og því hvernig stjórnarflokkarnir vinna saman er hins vegar á fáum stöðum skýrara en einmitt í þeim málaflokki. Þetta er málaflokkur þar sem hefur soðið upp úr á milli flokkanna með reglulegu millibili þannig að það hefur þurft að boða til einhverra krísufunda, ýmist í leyni eða fyrir opnum tjöldum. Síðast í febrúar settust fulltrúar allra flokkanna og komu út með eitthvert plan um aukna inngildingu og einhver frumvörp eða eitthvað svoleiðis. Þá hélt maður einmitt að þau væru búin að leiða þetta í jörð en svo bara tveimur mánuðum síðar kemur í ljós, þegar verið er að höndla með stólaskiptin eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur, að það var bara alls ekki búið að leiða þessi mál í jörð. Þetta var eitt af ágreiningsefnunum sem þurfti að ræða þessa löngu helgi sem þau þurftu til að ákveða að vilja vera saman áfram. Svo koma þau undan þeim feldi og þá hefði maður kannski haldið að ágreiningsmálin hefðu verið leidd í jörð. En nei, þá sér maður forystumenn flokkanna, formennina þrjá, sitja í Kastljósi og tala í kross. Maður sér þá koma hingað inn í sal þar sem var ígildi stefnuræðu forsætisráðherra, og tala í kross í þessum málaflokki sem tvisvar, bara það sem af er ári, átti að hafa verið leiddur í jörð á milli flokkanna.

Er þetta ekki einmitt svo gott dæmi um að óháð því hvað okkur finnst (Forseti hringir.) um málið sjálft þá er þessi ríkisstjórn ekki þess fær að komast að sameiginlegri niðurstöðu til að stýra almennilega svona málaflokkum?