Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:57]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því sem er gott í þessu frumvarpi því að það virðist vera að þarna sé ákveðin bragarbót gerð. Það er óhjákvæmilegt annað en að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hingað hafa komið og nefnt að það virðast vera ansi margar hindranir sem er ekkert endilega þörf á og væri rétt að hvetja til þess að skoða hvort ekki mætti slaka á mörgum af þeim takmörkunum. En það er annað sem ég myndi vilja vekja athygli á hvað þetta frumvarp varðar og það eru málefni trans einstaklinga. Nú getur svo farið, við það ferli sem trans einstaklingar undirgangast, að það geti verið þörf á að grípa til aðgerða til að varðveita frjósemi og þær aðgerðir eru stundum dýrar og kostnaðarsamar sem gerir því miður að verkum að ekki sjá sér allir fært að fara í aðgerðir til að varðveita frjósemi. Það má benda á til samræmis að í dag er ungmennum sem glíma við ýmsa kvilla eins og krabbamein gert þetta kleift og eru styrkt af ríkinu til þess. Mig langaði til að hvetja til þess að ráðherra skoði hvort ekki sé hægt með sama hætti að styrkja trans ungmenni til að varðveita frjósemi sína þannig að þau geti seinna á lífsleiðinni eignast eigin börn. Það er raunverulega það sem ég myndi hvetja ráðherra og nefndina til að skoða við afgreiðslu þessa máls.