Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að hafa þetta örstutt. Þetta með ábyrgðina, hún er alltaf til staðar, alveg sama hvernig fjölskylduformið er. Þegar þú ert kominn með einstakling, sem sagt barn, í hendurnar þá auðvitað berð þú ábyrgð. Sumum auðnast það og öðrum ekki. En eins og hv. þingmaður kom inn á og er það sem ég vildi tengja þessu frumvarpi og er fyrst og fremst það sem við þurfum að huga að, það er einmitt þessi erfðaþáttur og annað og hér er líka verið að tala um fyrirkomulag, hvað er æskilegt að gera og hvað ekki. Ég held bara að þegar maður hefur horft upp á hefðbundin gamaldags fjölskyldumynstur, eins og við getum kannski sagt í dag, verða með allt öðrum hætti — eins og ég sagði áðan þá verða jafnvel til upp úr því þrjár fjölskyldur, ég þekki nokkur svoleiðis dæmi þar sem allir deila ábyrgð — þá finnst manni ekki að regluverkið eigi að hamla því. En það er jú svo alltaf undir fólkinu komið en ekki kannski barninu sem er í þessari hringiðu hvernig öðrum málum í kringum það er háttað þangað til það getur haft á því skoðun sjálft. En ég ætla ekki hafa þetta lengra.