140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er hætt við því að hæstv. forsætisráðherra nái nú í gegn þessu sérstaka áhugamáli sínu, órökstuddum breytingum á Stjórnarráði Íslands, sem mun setja það í uppnám næstu mánuðina til þess eins að ná fram breytingu sem að öllum líkindum mun ekki gilda í meira en sex mánuði. Þetta hefur verið gert án samráðs við aðra stjórnmálaflokka, enda þótt hefðin hafi eðlilega verið sú að gera breytingar á Stjórnarráðinu í samstarfi allra flokka. Þetta hefur verið gert í hreinni andstöðu við atvinnugreinarnar sem undir þessi ráðuneyti heyra. Rökstuðninginn vantar algjörlega. Þetta er í andstöðu við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er í andstöðu við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem áréttaði það sérstaklega á flokksráðsfundi.

Þetta mun aðeins gilda í sex mánuði. Kostnaðurinn af þessu verður hins vegar umtalsverður og bætir þá enn í kostnaðinn af þessari ríkisstjórn. Þetta er því miður enn eitt dæmið um lélega forgangsröðun og óskiljanlegar ráðstafanir af hálfu þessarar ríkisstjórnar.