Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í lokin fyrst og fremst til að þakka þessa umræðu og kannski ekki síst þá samstöðu sem birtist í umræðunni um það réttlæti sem við erum raunverulega að leggja til með þeirri breytingu sem er í þessu frumvarpi sem við erum að ræða. Maður er líka minntur á það, vegna þess að það var mjög mikil breidd í þessari umræðu, hversu flókið þetta blessaða líf okkar getur verið og regluverkið er takmarkað og nær aldrei almennilega utan um allar þær kringumstæður sem við búum við, hvort heldur það á við einstaklinga eða fjölskyldu eða hvaða sambúðarform sem það er. Þannig er það nú bara.

Þá kem ég að þessu sem margir hafa komið inn á, af hverju við erum ekki að ganga lengra en að gera þessa einföldu breytingu sem við erum að leggja til hér, þ.e. sem kveður á um notkun og eyðingu kynfrumna og fósturvísa þegar upp kemur slit á hjúskap eða sambúð eða andlát þrátt fyrir að geymslutími sé ekki liðinn. Okkur finnst þetta réttlætismál og eftir þessa umræðu er maður eiginlega hissa á því að þetta sé með þessum hætti. Það er brýn þörf að breyta lögunum, það blasir við, og sem fyrst að þessu leytinu. Það má segja að umræðan hafi líka dregið það fram að það má sýna því skilning að það sé ekki verið að ráðast í víðtækari breytingar vegna þess að það er snertiflötur við ýmis önnur lög. Þá vildi ég draga það fram í lok umræðunnar og árétta það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að það stendur til að fara í heildarendurskoðun á lögunum og sú heildarendurskoðun verður unnin samhliða heildarendurskoðun dómsmálaráðuneytis á barnalögum.

Ég vil líka koma hér að vinkli sem snýr að lagaskilum en hér er kannski eðlilega lagt til að um þær kynfrumur og þá fósturvísa sem eru í geymslu við gildistöku laganna fari samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Það er auðvitað sanngirniskrafa að hin nýja réttarstaða, verði frumvarp þetta að lögum, gildi um þá einstaklinga sem nú þegar eiga kynfrumur eða fósturvísa í geymslu, enda erum við að ræða hér um réttarbót til handa þeim sem fara í þetta ferli.

Ég vil líka koma inn á það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér að — talandi um að þetta snerti önnur lög eins og erfðalög og barnalög og þess vegna er lagt upp með heildarendurskoðun — mikilvægi þess að lögin séu skýr og að réttur barnsins sé alltaf hafður að leiðarljósi, gleymum því aldrei, hvort heldur sem er í þessari umræðu og ég tala nú ekki um þegar við erum að breyta lögum.

Rétt að lokum, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á atriði sem reyndar fleiri hv. þingmenn komu inn á: Af hverju er ekki gengið lengra? Af hverju er gerð krafa um að leghafi sé einhleypur? Samkvæmt ákvæðum barnalaga þá getur barn einungis átt tvo foreldra og vísað í þær reglur sem ég vísaði til hér áðan um faðernis- eða foreldrastöðu. Það þykja standa skýr rök til að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun á sér stað, jafnvel þótt lögin gætu mælt fyrir um foreldrastöðu án þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur. Þarna er verið að horfa til þess að það kunna að skapast árekstrar, mismunandi væntingar og hagsmunir og getur skapað togstreitu og álag fyrir barnið. Þá þykir líka rétt að samkomulag aðilanna ráði úrslitum um foreldrastöðu jafnvel þótt leghafi kunni að ganga í hjúskap eða skráð sambúð sína með öðrum áður en barn fæðist, enda hefur nýr maki þá ekki tekið þátt í tæknifrjóvgunarferlinu. Þetta eru sjónarmið sem ég vildi draga fram. Mér finnst þetta réttmæt spurning og hún einhvern veginn blikkar á mann þegar maður les þetta yfir. En það má líka nefna að nýr maki leghafa sem hefur undirgengist tæknifrjóvgun með framangreindum skilyrðum getur eftir atvikum farið með forsjá barnsins að uppfylltum skilyrðum 29. gr. barnalaga eða jafnvel stjúpættleitt barnið að uppfylltum skilyrðum ættleiðingarlaga. Þannig að þessari spurningu var velt upp í vinnu við frumvarpið, ég vildi bara koma því á framfæri hér af því að hv. þingmaður dró þetta mjög skýrt fram í sinni framsögu. En annars vil ég bara að lokum, hæstv. forseti, þakka mjög góðar og djúpar umræður.