154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:50]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ef Háskólinn í Reykjavík tekur þá ákvörðun þá fær hann 100% framlög úr árangurstengdri fjármögnun og þá skiptist potturinn eftir þeim reglum sem þar eru. Í árabil hefur fjármögnun háskólanna verið þannig háttað að Alþingi samþykkir hér ákveðnar upphæðir þar sem farið er eftir gömlu fjármögnunarlíkani sem var samþykkt 1999 og hefur síðan verið fryst í mörg ár. Ríkisendurskoðun hefur gert margháttaðar athugasemdir við að fjármögnunin sé bæði ógagnsæ og að þar séu engir hvatar, hún sé hvorki skilvirk né nái hún árangri. Þessu er verið að breyta með skýrum reglum sem verða nú birtar þannig að gagnsætt sé hvernig háskólarnir fá sína fjármögnun, hvernig henni er skipt, hver prósentan er, hver hvatinn er á bak við og hvernig ákvörðun er tekin um hverja einustu krónu sem fer í háskólana. Það hefur ekki verið gert til lengri tíma. Það er áhyggjuefni að framlög í samkeppnissjóði fái ekki launa- og verðlagsbætur og við þurfum að vinna gegn því. Þessi ríkisstjórn hefur bætt verulega í samkeppnissjóði og sérstaklega í Covid. Núna er staðan í efnahagslífinu þannig að við þurfum að draga saman. (Forseti hringir.) Það er ábyrgðarhluti að auka ekki umfram getu okkar til þess að ná verðbólgu niður og svo vonast ég til að aftur verði hægt að sækja fram í þessu, enda skiptir það verðmætasköpun og árangur Íslands til lengri tíma máli.