154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég og hv. þingmaður deilum þeirri sýn að öll börn eigi að fá tækifæri til þess að stunda óformlegt nám sem íþrótta- og tómstundastarf sannarlega er. Hv. þingmaður hefur áður spurt að þessu og ég held að ég hafi áður svarað því til að þegar við lögðum af stað í þetta ríkisstjórnarsamstarf var lagt upp með það að við ætluðum að styðja við bakið á tómstunda- og íþróttaþátttöku barna í jaðarsettum hópum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu varð sú að styðja við þetta með þeim hætti að aðstoða íþróttafélögin til að ná til þessara barna, m.a. með samstarfi við íþróttahreyfinguna um nýtt svæðaskipulag og sérstökum hvatasjóði sem hægt er að sækja í fyrir íþróttafélög til að mæta jaðarsettum hópum, m.a. börnum með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn og fötlun en einnig börnum frá efnaminni heimilum. Niðurstaðan sýndi okkur þegar við fórum inn í þetta verkefni og fórum að gera það upp, þegar ríkið steig inn í þennan málaflokk í Covid-faraldrinum, að við vorum kannski ekki alveg að ná til þessara hópa þrátt fyrir að aukið fjármagn kæmi til stuðnings, því að það eru fleiri félagslegar aðstæður sem þarna spila inn í eins og til að mynda varðandi börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Þá þarf íþróttafélagið oft að hafa kapasítet og kalíber til að geta sótt til þessara fjölskyldna og byggt upp traust og stuðning. En þetta er líka eitt af því sem ég ræddi við stéttarfélögin í aðdraganda lífskjarasamnings, vegna þess að skólamáltíðir og niðurgreiðsla til íþrótta- og tómstundastarfs eru allt saman jákvæð skref. Niðurstaðan úr því samtali var að skólamáltíðir væru eitthvað sem við skyldum setja í forgang því að það mun líka nýtast þessum sömu fjölskyldum og þessum sömu börnum. Þetta varð því niðurstaðan. Þetta verkefni er komið af stað með íþróttahreyfingunni með sérstökum hvatasjóði, með nýju svæðaskipulagi og fulltrúum sem eiga að aðstoða íþróttafélögin við það. Ég vænti þess að við munum sjá tölfræðilegan árangur af því og það sem við ætlum líka að gera er að fylgjast með því.