154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og ég veit að það er ekki sanngjarnt að spyrja svo ofboðslega stórt og víðfeðmt í þessari umræðu þar sem tíminn er skammur. Mér fannst þó hæstv. ráðherra koma inn á þessa helstu þætti og þar er ég sammála honum. En mig langar að hvetja til þess að við vinnum þetta eins hratt og kostur er. Vegna þess að hæstv. ráðherra kom inn á matsferlana þá ætla ég að leyfa mér að nota það sem fólk þarna úti þekkir sem samræmd próf; það að einhver samræmd aðferð sé til að prófa getu og kunnáttu barna í grunnskólum. Börnin fá upplýsingarnar sjálf og geta notað þær til að átta sig á stöðu sinni, kennarar geta séð niðurstöðuna, skólastjórnendur og sveitarstjórnir og við getum séð samanburð á milli landsvæða og skóla. Ég held að það sé ofboðslega brýnt, hæstv. ráðherra, að við komum þessu á hið fyrsta. Það er í rauninni algerlega óþolandi að við séum í raun bara með þessa PISA-könnun sem einhvers konar niðurstöðu og mat á íslensku skólakerfi. (Forseti hringir.) Okkur vantar miklu fleiri tæki og ég veit að margir skólar hafa tekið upp ágætisgæðakerfi og eru að koma vel út úr innra mati. Ég veit að við erum með ytra matið, en samræmdir matsferlar eru eitthvað sem liggur mjög á.