154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:31]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í kjördæmaviku í febrúar síðastliðnum heimsóttum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði alla framhaldsskóla á landinu og ræddum við starfsfólk, skólastjórnendur og nemendur um þau málefni sem brýnust eru á framhaldsskólastiginu. Þar kom fram að stuðningi við nemendur af erlendum uppruna væri á flestum stöðum ábótavant og víða tækifæri til úrbóta. Á nýafstaðinni menntamálaráðstefnu Vinstri grænna talaði nemandi við Tækniskólann sem á rætur að rekja til Sómalíu, hefur verið á landinu rúmlega í rúmlega ár og svaraði spurningum ráðstefnugesta á nánast lýtalausri íslensku. Fram kom að hann hefði aldrei verið í skóla áður. Þarna má hrósa Tækniskólanum fyrir að taka vel á móti nemendum af erlendum uppruna en jafnframt benda á þann mannauð sem felst í fólki sem hingað leitar.

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun stendur, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn fyrir framhaldsskóla er að fleiri einstaklingar verði virkir og skapandi þátttakendur í samfélaginu, vel undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaði, tæknibreytingar og fræðilegt og/eða starfstengt framhaldsnám.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að veita framúrskarandi menntun um allt land með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem öll skipta máli og öll geta lært.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst stuðla að inngildingu nemenda af erlendum uppruna og úr hópi innflytjenda og hælisleitenda í framhaldsskóla þannig að sá mannauður sem við erum svo heppin að fá til okkar nýtist samfélaginu sem best.