154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:35]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og það gleður mig sannarlega að heyra metnað ráðherrans fyrir þessum mikilvæga málaflokki og áætlanir hans um að gera enn betur. Mig langar að halda mig á svipuðum slóðum hér í seinna andsvari en færa mig þó yfir í leik- og grunnskóla. Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið á leikskóla- og grunnskólastigi er að börn og ungmenni finni til vellíðunar og öryggis í öllu skóla- og frístundastarfi sem byggist á inngildandi skólastarfi með það að markmiði að þau búi yfir skapandi og gagnrýninni hugsun …“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig tryggt verði að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn upplifi þessa vellíðan og þetta öryggi eins og önnur börn í leik- og grunnskólum.